20 manna hópur vinnur við mál Íslands hjá AGS

Franek Roswadowsky og Mark Flanagan, starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Franek Roswadowsky og Mark Flanagan, starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. mbl.is/GSH

„Tuttugu manna hópur vinnur að málefnum Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Flestir eru þeir í höfuðstöðvum sjóðsins í Washington en þrír eru á Íslandi. Sumir þeirra hafa unnið alla starfsævi sína við að aðstoða við endurreisn banka. 

Þetta kemur fram í frétt viðskiptablaðsins Forbes, þar sem fjallað er um vaxtalækkun íslenska Seðlabankans á fimmtudag. Þar er rætt við Svein Harald Øygard, seðlabankastjóra, og Franek Rozwadowski, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, um þann ágreining, sem virtist vera milli sjóðsins og bankans um stýrivexti. Rozwadowski hafði áður sagt að ekki væru forsendur fyrir frekari lækkun í bili vegna þess að það myndi hafa þau áhrif að gengi krónunnar lækki. 

Øygard bendir hins vegar á, að frá því Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom fram með þessa skoðun sína hafi gengi íslensku krónunnar styrkst lítillega.  „Okkar upplýsingar voru betur undirbyggðar en upplýsingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," segir hann.  

Rozwadowski sagði við Forbes, eins og hann hefur áður sagt við mbl.is, að þessi ákvörðun Seðlabankans hafi engin áhrif á samstarf sjóðsins og Íslands.  Það sem máli skipti sé að heildarstefnan í vaxtamálum samræmist þörfinni að halda gengi gjaldmiðilsins stöðugu. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun fara yfir efnahagsáætlun Íslands með formlegum hætti um miðjan júlí. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka