130 þúsund á fjölskyldu

Skattahækkanir, sem ríkisstjórnin boðar í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum á þessu ári, verða um 130 þúsund krónur að meðaltali á hverja fjölskyldu og 270 þúsund á næsta ári.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans í dag. Tekið er fram að um 20% af skatttekjunum séu vegna aukinna skatta á háar tekjur sem hafi því ekki áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með lægri laun.

Hækkanir á virðisaukaskatti, tekjuskatti og launatengdum gjöldum  eiga að skila rúmum 10,4 milljörðum króna í ríkissjóð á þessu ári og 28 milljörðum á árinu 2010. Aðgerðir á útgjaldahlið eiga jafnframt að skila um 9,4 milljörðum á þessu ári og afkoma ríkissjóðs batnar því um a.m.k. 20 milljarða  það sem eftir lifir ársins ef markmið frumvarpsins ná fram að ganga.

Landsbankinn fjallar einnig um stýrivexti Seðlabankans og segist telja ólíklegt að peningastefnunefnd lækki vexti í júlíbyrjun þótt nú liggi fyrir áætlanir stjórnvalda um efnahagsráðstafanir. 

Ljóst sé að nýir efnahagsreikningar ríkisbankanna og uppgjör við gömlu bankanna muni ekki liggja fyrir fyrr en eftir 17. júlí. Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi ekki afgreitt næstu greiðslu á láni sjóðsins og tvíhliða lánasamningum við vinaþjóðir sé ekki lokið. Þá ríki nokkur óvissa um hvenær lög um Icesave samningana við Hollendinga og Breta verði samþykkt af Alþingi.

„Af þessu má ætla að peningastefnunefnd mun að óbreyttu ekki finna forsendur fyrir mikilli lækkun stýrivaxta við næstu vaxtaákvörðun, sem verður tilkynnt 2. júlí nk." segir hagfræðideild Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert