Ekkert svartnætti í vegagerð

Ráðherra hefur meiri áhyggjur af framkvæmdum á næstu árum.
Ráðherra hefur meiri áhyggjur af framkvæmdum á næstu árum. mbl.is/G.Rúnar

 „Það er ekki útilokað að við náum að setja nokkur verk í gang sem einkaframkvæmdaverk,"  sagði Kristján L. Möller, samgöngumálaráðherra í samtali við mbl.is.

„Það eru auðvitað viðræður í gangi og það eru nokkur verk inni á samgönguáætlun sem eru hugsuð sem einkaframkvæmdaverk og þar á meðal er tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegurinn í Mosfellsbænum var auðvitað hugsaður sem hefðbundin ríkisframkvæmd, stóri kaflinn frá Kjalarnesi og upp að göngum var hugsaður sem einkaframkvæmd," sagði Kristján.

 Kristján nefndi einnig Vaðlaheiðargöng í þessu samhengi og sagði að undirbúningsvinna væri langt komin og göngin væru við það að verða tilbúin í svokallað forval.

Veggjald og skuggagjald

Kristján sagði að bæði hefðu innlendir lífeyrissjóðir haft samband með það í huga að setja fé í þessar framkvæmdir og eins hefðu erlendir fjárfestar haft samband og sýnt þessu áhuga. En hvernig munu fjárfestarnir fá arð af slíkum fjárfestingum?

„Í Vaðlaheiðagöngunum er það hugsað sem sambland af veggjaldi og skuggagjaldi sem er  greiðsla frá ríkinu miðuð við umferð í ákveðinn langan tíma á eftir," sagði Kristján og bætti því við að fjármögnuninni yrði skipt niður til helminga á þessar tvær fjáröflunaraðferðir.

 En kæmi til veggjald á Vestur- og Suðurlandsvegi? „Það hefur ekkert verið rætt um það en í samgönguáætlun er rætt um það hvernig framtíðargjaldheimtu skal hagað af umferð því við sjáum að hluti bensín- og olíugjalds sem rennur til vegagerðar er sífellt að lækka og ljóst að við getum ekki staðið undir allri vegagerð á komandi árum bara með okkar hlut úr bensín- og olíugjaldi," sagði Kristján.

Ástæðan mun vera sparneytnari bílar og svo benti Kristján jafnframt á vinnu fjármálaráðuneytisins sem snýr að hugsanlegum kolefnisgjöldum sem gætu komið í staðinn. „Það er vinna sem hefur legið niðri frá efnahagshruninu en það þarf að taka upp þá vinnu á ný," sagði Kristján.

Næstmesta framkvæmdaárið

„Það þarf einfaldlega að fara í gegnum peningahliðina í þessu heildarendurmati sem Ísland er í," sagði Kristján. Mun eitthvað af þessum verkum fara af stað í sumar? „Það er auðvitað undirbúningstími að öllum verkum, sama hvort það er hefðbundin ríkisframkvæmd eða einkaframkvæmd, það tekur alltaf sinn tíma. það er nú ekkert svartnætti í þessu núna því árið í ár er annað mesta framkvæmdaár íslandssögunnar í vegamálum í krónum talið þrátt fyrir niðurskurð. Við erum með mjög mörg verk í gangi," sagði Kristján að lokum.

Hann bætti því við að frekar þyrfti að hafa áhyggjur af næstu árum, 2010 og 2011 og sagði að það væri  verk sem yrði unnið núna samfara allri þeirri uppstokkun sem nú fer fram í ríkisfjármálunum í heild sinni.

„Hvort að útboð hefjast á ný í sumar eða haust er bara ekki ljóst á þessu stigi," sagði Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert