Álit Hagfræðistofnunar gefur ekki endanleg svör

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson

„Við fengum í raun ekki svör við því hvað væri rétt eða rangt eða hverjar efnahagslegar forsendur eru í náinni framtíð. Skýrslan gefur ekki endanlega niðurstöðu. Hún gefur okkur hins vegar fleiri forsendur til þess að meta samninginn,“ Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar. Hann segir líka að niðurstaða skýrslunnar sé að sumu leyti nokkuð ólíkar niðurstöðum Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins.

„Aðalatriðið er að öll þessi álit segja að við getum þetta, það er að segja við eigum að ráða við þetta ef ekki verður hrun í þjóðarbúskapnum eða ef eitthvað fer á versta veg.“

Umfjöllunarefni nefndarinnar er ríkisábyrgð vegna Icesave. Guðbjartur segir nefndarmenn geta sett inn forsendur fyrir því að ríkisábyrgðin skuli ekki halda nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, t.d. ef endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans verða ekki 75% eins og gert er ráð fyrir nú.

Skýrslan var afhent nefndarmönnum í morgun. Aðspurður hvort hún hafi breytt afstöðu nefndarmanna segist Guðbjartur gera ráð fyrir að hver hafi sína  skoðun á álitinu og niðurstöðu þess.

„Það er mjög mikilvægt, eins og kemur fram í álitinu að við höfum lánstraust á alþjóðamörkuðum. Ég tel eina af forsendunum fyrir því vera að við afgreiðum Icesave málið en ekki eru allir sammála því. Menn meta svona skýrslur með mismunandi hætti.“

Fjárlaganefnd mun funda á fimmtudag um álitið og frumvarp til ríkisábyrgðar. Guðbjartur segir að án efa verði lagðar til breytingar á frumvarpinu, en ekki sé víst hvernig þær verða á þessari stundu. 

Stefnt er að því að hefja þingfundi á mánudag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert