Aflaverðmæti nam 99 milljörðum

Reuters

Árið 2008 var afli íslenskra skipa rúm 1.283 þúsund tonn, 113 þúsund tonnum minni en árið 2007, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Aflaverðmæti ársins 2008 var rúmlega 99 milljarðar króna á verðlagi ársins og hækkaði um tæpa 19 milljarða króna eða 23,6% frá 2007. Aflaverðmæti ársins 2008 á föstu verðlagi var 2,1% minna eða 2,2 milljörðum króna lægra en aflaverðmæti ársins 2007.

Stærsti hluti afla íslenskra fiskiskipa var unninn á Austurlandi, mest uppsjávarafli sem landað var þar. Stærsti hluti botnfiskaflans var unninn á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum eða rúm 40%. Af þorskaflanum fór mest í salt en stærstur hluti ýsuaflans var frystur í landi.

Minni þorskafli - meira verðmæti

Þorskaflinn var tæplega 12% heildaraflans, eða rúmlega 151 þúsund tonn, sem er tæplega 23 þúsund tonna samdráttur frá árinu 2007. Þorskurinn er sem fyrr verðmætasta fisktegundin, en aflaverðmæti þorsks nam 32,2 milljörðum króna árið 2008 eða um 33% af heildaraflaverðmætinu. Aflaverðmæti þorsks jókst milli ára um tæplega 3 milljarða króna eða 9%. Meðalverð þorsks hækkaði um 25,5%, en raunverð hans var sem næst óbreytt. Ríflega 57% þorskaflans var seldur í beinum viðskiptum, þ.e. þegar útgerð selur milliliðalaust til vinnslustöðvar. Verð í slíkum viðskiptum hækkaði um 30% frá árinu 2007, en raunverðshækkun nam 4,2%. Í sjófrystingu fór 19,1% þorskaflans og hækkaði verð þess afla um 17,1% (-6,1% raunverðslækkun) milli ára. Verðhækkun varð einnig milli ára á innlendum markaði eða um 20,6% (-3,3% raunverðslækkun), en þar voru 14,9% þorskaflans seld.

Verðmæti ýsuafla jókst um 4%

Á árinu 2008 veiddust rúm 102 þúsund tonn af ýsu, sem er tæpum 7 þúsund tonnum minna en árið 2007. Verðmæti ýsuaflans nam rúmum 15,1 milljarði sem er rúm 4% aukning á milli ára. Meðalverð ýsu jókst um 11% frá árinu 2007 (raunverðslækkun -10,9%). Tæplega 23% ýsuaflans voru seld í beinum viðskiptum og drógust slík viðskipti saman milli ára. Á innlenda markaði fóru 29,8% af ýsuaflanum og 25,3% í gámaviðskipti sem er töluverð aukning frá árinu áður. Verð í beinum viðskiptum hækkaði milli ára um 10,7% (-11,2%), var 99 kr./kg. Verð á innlendan markað hækkaði um 7,6% (-13,7%) fór úr 135 kr./kg í 145 kr./kg. Verð í gámaviðskiptum hækkaði um 19,5% (-4,2%) frá fyrra ári.

Aflaverðmæti ufsa jókst um helming

Ufsaaflinn nam rúmum 70 þúsund tonnum sem er aukning um tæp 6 þúsund tonn frá fyrra ári. Aflaverðmæti ufsa jókst um 52,1% frá fyrra ári og nam tæpum 6,5 milljörðum króna. Meðalverð ufsa hækkaði um 40% (raunverð 11,7%) og var hvert kíló á 92 kr. Um 52% ufsaflans voru fryst um borð og þar hækkaði verð um 43% (14%). Í beinum viðskiptum voru 37% aflans seld og hækkaði meðalverð þar um 19% (-5%). Töluvert minna af aflanum fór á innlenda markaði eða 9%, sem er þó hlutfallsleg aukning frá árinu áður. Meðalverð í þessum viðskiptum jókst um 35% (8%) milli ára.

Fjórðungsaukning karfaafla

Karfaaflinn jókst um 25,5% frá árinu 2007 og var tæp 70 þúsund tonn árið 2008. Aflaverðmæti var 9,2 milljarðar sem er tæplega 59% aukning frá fyrra ári. Meðalverð var 132 kr./kg og hækkaði um 26,4% milli ára (1,3% raunhækkun). Stærsti hluti karfans er sjófrystur eða 55% og þar hækkaði verð um tæp 55% (24%), fór í 146 kr./kg. Um 22% aflans voru seld í beinum viðskiptum, heldur minna en árið áður. Rúmlega 18% karfaaflans fóru í gáma. Verð í beinum viðskiptum lækkaði um 0,9% (-20,5) en verð í gámaviðskiptum hækkaði um 10% (-11,8%).

Verðmæti grálúðu jókst um 95%

Grálúðuaflinn var tæplega 12 þúsund tonn árið 2008 sem er 22,1% aukning frá árinu 2007. Heildarverðmæti grálúðuaflans nam rúmum 4 milljörðum sem er um 95% aukning frá árinu áður. Grálúðan fór því sem næst öll í sjófrystingu líkt og undanfarin ár.

Rækjan enn í lægð

Rækjuafli á árinu 2008 var rúm 2 þúsund tonn líkt og árið áður, en ársafli rækju hafði þá ekki verið lakari undanfarna tvo áratugi. Aflaverðmæti rækju var 303 milljónir króna sem er 74 milljóna króna aukning frá árinu 2007.

Loðnan gaf rúmlega milljarði minna

Loðnuaflinn nam rúmlega 138 þúsund tonnum á árinu 2008 samanborið við rúm 294 þúsund tonn 2007. Magn landaðra loðnuhrogna nam rúmlega 10 þúsund tonnum en var rúm 13 þúsund tonn árið 2007. Aflaverðmæti loðnu var 1,8 milljarðar króna á árinu 2008 á móti 4,2 milljörðum króna árið 2007. Verðmæti loðnuhrogna árið 2008 nam, líkt og árið áður, rúmum milljarði króna.

30% samdráttur í Kolmunna

Kolmunnaaflinn var tæplega 164 þúsund tonn sem er 71 þúsund tonni minna en árið 2007. Aflaverðmætið nam 2,7 milljörðum króna sem er 303 milljónum króna (10%) minna en árið 2007.

Meiri síld

Tæplega 171 þúsund tonn veiddist af íslenskri sumargotssíld, sem er tæpum 27 þúsund tonnum meira en árið 2007. Aukning varð í aflaverðmæti um 116% sem nam árið 2008 tæpum 4,6 milljörðum króna.

Norsk-íslensk síld
Afli norsk-íslensku síldarinnar jókst um rúm 24 þúsund tonn, eða 13,7% frá árinu 2007 og var rúm 200 þúsund tonn. Aflaverðmætið nam hins vegar rúmum 7,5 milljörðum sem er 110,6% aukning frá árinu 2007.  

Frétt Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert