Markvissar forvarnir skila árangri

Hjarta- og æðasjúkdómar eru enn algengasta dánarorsök karla og kvenna í Evrópu en dánartíðni af þeirra völdum hefur lækkað verulega í flestum löndunum. Tíðni dauðsfalla vegna kransæðasjúkdóms er lægst meðal íslenskra kvenna á meðan íslenskir karlar eru í sjötta sæti. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem Hjartavernd kynnti í dag.

Tíðni dauðsfalla vegna heila-blæðinga er hinsvegar lægst meðal íslenskra karla en íslenskar konur eru í fimmta sæti, segir í jafnframt í skýrslunni sem ber heitið Cardiovascular disease prevention in Europe – the unfinished agenda.

Skýrslan er afrakstur vinnu við fimmta hluta verkefnisins „EuroHeart” og fjallar um forvaráætlanir hinna ýmsu Evrópuþjóða og mat á árangri þeirra.

Fram kemur í tilkynningu að munur milli einstakra landsvæða innan Evrópu geti verið verulegur bæði hvað varði dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma og síðast en ekki síst komi í ljós talsverður munur á milli landa á opinberum áætlunum (e. national policies) og því regluverki sem stjórnvöld setji um forvarnir.

Dánartíðni af völdum kransæða-sjúkdóms sé t.d. sex sinnum hærri meðal karlmanna í Ungverjalandi en Frakklandi  og karlmaður í Eistlandi sé ríflega 10 sinnum líklegri til að deyja úr heilablæðingu en íslenskur karlmaður (miðað við 65 ára og yngri).

Þá segir að umrædd skýrsla staðfesti að markviss forvarnarstefna hafi skilað góðum árangri þar sem verulega hafi dregið úr dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.

Íslendingar hafa þyngst

Tekið er fram að Íslendingar hafi þó þyngst umtalsvert á síðustu árum og bent er á að dagleg neysla Íslendinga á grænmeti og ávöxtum sé lægst miðað við löndin 16 sem skýrslan fjalli um.

Íslendingar vermi auk þess næst efsta sætið á eftir Slóvenum þegar litið sé á hvaðan hitaeiningar daglegrar neyslu komi en 42% hitaeininga Íslendinga koma úr fitu á meðan hlutfallið er 31% hjá Norðmönnum.

Tekið er fram að þetta sé engan vegin ásættanleg þróun og snúa verði vörn í sókn. Að sama skapi megi alls ekki minnka tóbaksvarnir. Enda sýni nýjar rannsóknir að verulega hafi dregið úr inngripum og innlögnum vegna kransæðasjúkdóms hjá þeim sem ekki reykja í löndum þar sem bann er lagt við reykingum á opinberum stöðum.

Nánar á vef Hjartaverndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert