Árásin án nokkurar viðvörunar

Frá aðgerðum lögreglu í Reykjanesbæ í gær
Frá aðgerðum lögreglu í Reykjanesbæ í gær Víkurfréttir

Fimm ára gömul stúlka var um hádegi í gær stungin í brjóstið með eggvopni á heimili sínu, í Suðurgötu í Reykjanesbæ. 22 ára gömul kona var handtekin litlu síðar grunuð um árásina. Lagið var örstutt frá hjarta og lifur stúlkunnar og fór blaðið framhjá öllum stórum æðum. Miðað við aðstæður heilsast stúlkunni vel, samkvæmt upplýsingum læknis.

„Hún annaðhvort bankar eða hringir bjöllunni þarna og stúlkan kemur til dyra og konan virðist hafa stungið hana með þessum hnífi,“ segir Karl Hermannsson, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum. Foreldrar stúlkunnar urðu eftir því sem næst verður komist vitni að árásinni sem ku hafa verið án nokkurrar viðvörunar. Lögreglan yfirheyrði konuna í gær en ekki er enn vitað hvað henni gekk til. Stúlkan og hún munu vera óskyldar. Ekki fékkst staðfest hvort konan var undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa.

Móðir stúlkunnar kom með hana á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um klukkan 12.15 í gær að sögn læknis sem tók á móti mæðgunum. Í kjölfarið var lögreglu gert viðvart. Gert var að sárum stúlkunnar en tæpum tveimur tímum seinna var ákveðið að senda hana með sjúkrabíl til Reykjavíkur til frekari rannsókna.

Í upphafi var ekki ljóst hvort lagt var til stúlkunnar með hnífi eða glerbroti en á gjörgæslu Landspítalans við Hringbraut fengust þær upplýsingar að sennilega hefði verið um nokkuð stóran eldhúshníf að ræða. Rannsókn málsins mun vera í fullum gangi en rannsóknardeild lögreglunnar verst allra frétta. Mun rannsóknin vera á viðkvæmu stigi en von er á ítarlegri fréttatilkynningu um málið í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert