Sögðu samningum ekki upp

Fulltrúar SA og ASÍ á fundi í gærkvöldi.
Fulltrúar SA og ASÍ á fundi í gærkvöldi.

Samtök atvinnulífsins sögðu ekki upp kjarasamningum við Alþýðusamband Íslands fyrir miðnætti. Því gilda samningarnir áfram og launahækkanir, sem frestað var í mars, koma til framkvæmda 1. nóvember.

Kauptaxtar hækka þá um 6750 krónur eða 8750 krónur á mánuði  og sömuleiðis 3,5% launaþróunartrygging.

„Staðan er þannig að kjarasamningarnir halda, en það eru ákveðin atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stöðugleikasáttmálann, sem við erum ekki sátt við," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um miðnættið.

Aðspurður segir Vilhjálmur þetta ekki þýða að Samtök atvinnulífsins hafi sagt sig frá stöðugleikasáttmálanum. „Við bara óskum eftir áframhaldandi viðræðum á morgun," segir Vilhjálmur.

Í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld voru bæði Vilhjálmur og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, bjartsýnir á að jákvæð niðurstaða fengist í viðræðum við ríkisvaldið sem tryggði, að SA þyrfti ekki að segja kjarasamningunum upp.

Bakslag virtist síðan hafa komið í viðræðurnar  seint í kvöld og Steingrímur J. Sigfússon, sem var í flugi frá Stokkhólmi lungann úr kvöldinu, mun hafa komið með eitthvert innlegg í umræðuna. Svo virðist sem helst hafi verið deilt um auðlinda-, orku- og umhverfisskattana, sem fyrirhugaðir eru í fjárlagafrumvarpinu.

Á tólfta tímanum í kvöld sagði Vilhjálmur hins vegar að ekki stæðu nein óviðráðanleg mál út af borðinu og verið væri að vinna í þeim.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert