Höskuldur stendur við orð sín

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Bragi —r J—sefsson

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist velta fyrir sér hversu langt sé hægt að ganga í útúrsnúningnum til að réttlæta  persónulegar árásir í sinn garð.

Tilefnið er orðaskipti Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi umhverfisráðherra og Höskuldar á Alþingi á föstudag. Þórunn ásakaði þar Höskuld um lygar en hann stendur við orð sín og segir eðlilegt að Þórunn biðji hann afsökunar.

Í yfirlýsingu á heimasíðu sinni vísar Höskuldur í álit nr. 5376/2008, frá 29. desember 2008 þar sem ekki fari á milli mála að umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að fyrrv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hafi brotið lög. „Er það heldur ekki furða þar sem ráðuneytið fór 8 mánuði fram yfir hinn lögbundna tveggja mánaða frest sem getið er í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Með öðrum orðum þá dróst um 10 mánaða skeið að kveða upp úrskurðinn og rannsóknir við tilraunaborholur töfðust á meðan,“ segir Höskuldur

„Í sjálfu sér hefði ég getað látið nægja að vísa í álitið til að sannreyna fullyrðingar mínar um að ráðherrann hafi brotið lög skv. niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Það liggur fyrir að hún kvað upp úrskurð sem ráðherra sem braut á bága við lög og tafði tilraunaboranar á Þeistareykjum. Verkefni sem alla tíð hefur verið samofið verkefninu um að reisa stóriðju á Bakka við Húsavík.

Að mínu mati hefði verið eðlilegt að þingmaðurinn sem sakaði mig um lygar hefði komið fram og beðið mig afsökunar á þeim orðum. Það sem mér finnst hins vegar lítilmannlegt er að þingmaðurinn reyndi í ræðu að leggja mér orð í munn og gefa í skyn að ég hafi sagt að umboðsmaður Alþingis hafi aldrei gefið álit sitt á úrskurðinum um hið sameiginlega mat. Það sagði ég hvergi. Það kemur skýrt fram í upptökum af umræðum á heimasíðu Alþingis. Maður veltir fyrir sér hversu langt er hægt að ganga í útúrsnúningnum til að réttlæta upphlaup sitt og persónulegar árásir í minn garð.

Málið er aftur á móti stærra en svo að ég láti gönuhlaupið slá mig út af laginu í umræðunni enda lífsafkoma og atvinnutækifæri fólks á norðaustur hluta landsins í húfi.

Þess bera að geta að í lítilli frétt í Fréttablaðinu í dag kemur sami misskilningur fram í fréttatilkynningu frá Umhverfisráðuneytinu og þingmaðurinn viðhafði í ræðustól. Hann leiðréttist hér með. “

Grein Höskuldar í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert