Samþykkt að sameina átta prestaköll

Selfosskirkja
Selfosskirkja Mbl.is/ Kristinn

Á kirkjuþingi 2009, sem lauk í gær,  voru samþykktar átta sameiningar prestakalla, sameiningar fimm prófastsdæma í tvö og tilfærslur þriggja prestakalla milli prófastsdæma.

Samþykktir um sameiningu prestakalla taka gildi 30. nóvember en aðeins tvær koma til framkvæmda þá þar sem sóknarprestar í öðru þeirra prestakalla er sameinast eiga hafa látið af störfum, samkvæmt tilkynningu.  

Sóknarprestur í Hraungerðisprestakalli verður sóknarprestur á Selfossi

Hraungerðisprestakall og Selfossprestakall í Árnesprófastsdæmi sameinast. Heiti hins sameinaða prestakalls verður Selfossprestakall.

Samþykktin felur í sér að sóknarprestur Hraungerðisprestakalls verður sóknarprestur á Selfossi. Í ljósi stærðar prestakallsins og þjónustuþunga verður einnig auglýst staða prests í prestakallið.

Ólafsvíkurprestakall og Ingjaldshólsprestakall í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi sameinast. Heiti hins sameinaða prestakalls verði Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall. Prestssetur verður í Ólafsvík. Þar sem sóknarprestur í Ólafsvík er að láta af störfum þar verður sóknarprestur Ingjaldshólsprestakall sóknarprestur hins sameinaða prestakalls.

Húnavatns-og Skagafjarðarprófastsdæmi sameinist. Heiti hins sameinaða prófastsdæmis verði Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.

Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessprófastsdæmi sameinist. Heiti hins nýja prófastsdæmis verði Suðurprófastsdæmi.

Samþykkt var að Vestmannaeyjaprestakall í Kjalarnessprófastsdæmi tilheyri hinu nýja Suðurprófastsdæmi. Siglufjarðarprestakall í Skagafjarðarprófastsdæmi tilheyri Eyjafjarðarprófastsdæmi og Hólmavíkurprestakall í Húnavatnsprófastsdæmi tilheyri Vestfjarðarprófastsdæmi.

 Í Rangárvallaprófastsdæmi var samþykkt að bæirnir Ártún, Bakkakot 1 og 2, Ármót, Fróðholt og Uxahryggur 1 og 2 sem tilheyra Oddasókn tilheyri Akureyjarsókn. Breyting þessi tekur gildi frá 30. nóvember næstkomandi.

Sameiningar prestakalla sem koma til framkvæmda við starfslok presta eru eftirfarandi:

Skaftafellsprófastsdæmi: Kálfafellsstaðarprestakall sameinist Bjarnanesprestakalli. Heiti hins sameinaða prestakalls verði Bjarnanesprestakall. Prestssetur verði á Höfn.

Samþykkt var ákvæði til bráðabirgða gerir biskupi Íslands heimilt að ráða héraðsprest í allt að 50% starf er hafi sérstakar skyldur við Bjarnanesprestakall.

Rangárvallaprófastsdæmi: Holtsprestakall sameinist Víkurprestakalli og Breiðabólstaðarprestakalli. Ásólfsskála-, Eyvindarhóla- og Stóra- Dalssóknir tilheyri Víkurprestakalli, Skaftafellsprófastsdæmi. Akureyjar- og Krosssóknir tilheyri Breiðabólsstaðarprestakalli, Rangárvallaprófastsdæmi. Þessi tvö prófastsdæmi munu verða hluti hins nýja Suðurprófastsdæmis.

Árnessprófastsdæmi: Mosfellsprestakall og Skálholtsprestakall sameinist. Heiti hins sameinaða prestakalls verði Skálholtsprestakall. Prestssetur verði í Skálholti.

Stóra-Núpsprestakall og Hrunaprestakall sameinist. Heiti hins sameinaða prestakalls verði Hrunaprestakall. Prestssetur verði að Hruna.

 Vestfjarðaprófastsdæmi: Staðarprestakall og Þingeyrarprestakall, sameinist. Heiti hins sameinaða prestakalls verði Þingeyrarprestakall. Prestssetur verði á Þingeyri.

Súðavíkur,- Vatnsfjarðar- og Ögursóknir tilheyri Holtsprestakalli.

 Eyjafjarðarprófastsdæmi: Hríseyjarprestakall og Möðruvallaprestakall sameinist. Heiti hins sameinaða prestakalls verði Möðruvallaprestakall. Prestssetur verði að Möðruvöllum í Hörgárdal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert