Jólaverslun fer rólega af stað

Töluverður samdráttur er enn í raunveltu smásöluverslunar á milli ára
Töluverður samdráttur er enn í raunveltu smásöluverslunar á milli ára Reuters

Jólaverslunin virðist fara rólega af stað, samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Sala á fötum og skóm jókst í nóvember frá mánuðinum á undan en samdráttur varð í öðrum vöruflokkum á föstu verðlagi. Þó ber að hafa í huga að í október voru fimm helgar en í nóvember voru þær fjórar.

Spá Rannsóknaseturs verslunarinnar um jólaverslunina er að velta í smásöluverslun í nóvember og desember verði óbreytt frá því í fyrra á föstu verðlagi en þá er miðað við þá krónutölu sem er í gangi hvert sinn sem mælt er óháð öllum öðrum áhrifum, og aukist um 8% á breytilegu verðlagi, en þá á sér stað leiðrétting á verðlaginu með því að taka tillit til verðbreytinga sem hafa orðið á tímabilinu.

Í fyrra nam samdráttur í jólaverslun 18,3% frá árinu á undan. Þetta var mikil breyting frá árunum þar á undan því árlegur vöxtur jólaverslunar nam 7,3% að meðaltali á tímabilinu 2004 – 2007.
 
Mun minna keypt í nóvember í ár heldur en í fyrra

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 3,6% á föstu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,6% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu dagvöruverslana í nóvember 3,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 10,5% á síðastliðnum 12 mánuðum.
 
Sala áfengis minnkaði um 9,3% í nóvember miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 15,3% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu áfengis í nóvember 6,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 27,2% hærra í nóvember síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.
 
Fataverslun var 9,6% minni í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 8,9% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum var 20,5% hærra í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. 
 
Velta skóverslunar jókst um 6% í nóvember á föstu verðlagi og um 26,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði í nóvember um 19,7% frá nóvember í fyrra.
 
Velta húsgagnaverslana var 33,5% minni í nóvember en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og 23,5% minni á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum var 15,2% hærra í nóvember síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.
 
Mikill samdráttur í sölu á raftækjum milli ára

Sala á raftækjum í nóvember dróst saman um 21,6% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 2,6% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Á milli mánaðanna október og nóvember minnkaði raftækjasala  um 3,6% á föstu verðlagi. Verð á raftækjum hækkaði um 24,3% frá nóvember í fyrra.

Töluverður samdráttur er enn í raunveltu smásöluverslunar á milli ára sem kemur sérstaklega fram í minni kaupum á dýrum og varanlegum vörutegundum. Þannig keyptu landsmenn minna í nóvember síðastliðnum en í nóvember í fyrra þó veltan hafi aukist í krónum talið.
 

 

Jólaverslunin fer hægt af stað
Jólaverslunin fer hægt af stað mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert