Efasemdir um styrk Seðlabankans

Ríkisendurskoðun segir í skýrslu um ríkisreikning ársins 2008, að spyrja megi hvort Seðlabanki Íslands hafi, þegar líða fór á árið, í reynd getað
sinnt því hlutverki að vera það sem kallað sé „lánveitandi til þrautarvara“  bæði vegna stærðar bankakerfisins og þess hvað það var að stórum hluta fjármagnað í erlendum gjaldmiðlum.

Íslenska bankakerfið var þá orðið álíka stórt og tíföld landsframleiðsla Íslands.

Ríkisendurskoðun segir, að það sé almennt viðurkennt að þrautarvaralánveitendur séu nauðsynlegir til að tryggja stöðugleika fjármálakerfa. Seðlabankar, stundum með bakstuðningi ríkissjóða, gegni þessu hlutverki. Nægur fjárhagslegur styrkur til að geta staðið að baki bankakerfis sé forsenda trúverðugleika allra þrautarvaralánveitanda.

Í skýrslunni er rakin sú þróun, sem varð árin 2007 og 2008. Eftir mikla þenslu á fjármálamörkuðum víða um lönd, sem m.a. var drifin áfram af gríðarmiklu framboði ódýrs lánsfjár, hafi komið verulegur afturkippur í ársbyrjun 2007. Íslensku bankarnir hafi ekki farið varhluta af því og raunar þegar árið 2006 glímt við vandamál vegna fjármögnunar í Evrópu, m.a.vegna gagnrýni sem þeir sættu fyrir áhættusækna stefnu. Þeir voru auk þess gagnrýndir fyrir skort á gagnsæi í starfsemi sinni, krosseignatengsl og miklar lánveitingar til eignarhalds‐ og fjárfestingarfélaga, oft í eigu sömu aðila og bankarnir sjálfir eða annarra tengdra aðila.

Bankarnir brugðu þá á það ráð sækja fjármagn  á skuldabréfamarkað í Bandríkjunum, Japan og víðar. Auk þess stofnuðu þeir til innlána erlendis, ýmist í gegnum útibú eða dótturfélög. Í ágúst 2007 lokuðust síðan  alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir alveg fyrir lán til íslenskra eignarhaldsfélaga og íslenskra banka í útrás enda hækkaði svokallað skuldatryggingarálag þeirra mjög mikið. Því leitaði íslenska bankakerfið í auknum mæli til Seðlabankans og fékk þar lán gegn veðtryggingum.

Taldi það vera lögbundið hlutverk að útvega lausafé

Ríkisendurskoðun segir, að Seðlabankinn hafi litið á það sem lögbundið  hlutverk sitt að veita innlendum fjármálastofnunum lausafjárfyrirgreiðslu eins og seðlabankar annarra ríkja voru að gera. Í samræmi við þetta veitti  bankinn innlánsstofnunum umtalsverð veðlán.

„Fram hefur komið af hálfu forsvarsmanna bankans að hann taldi sér ekki heimilt að draga úr vexti bankakerfisins. Seðlabankinn sé „banki bankanna‘‘ og eigi að sjá fjármálakerfinu fyrir lausafé til skamms tíma. Seðlabankinn leit því svo á að honum væri ekki stætt á öðru en að veita lán gegn veðum og anna þannig eftirspurn bankakerfisins eftir lausafé. Hins vegar liggur fyrir að ekkert hámark var á lánveitingunum svo lengi sem tryggingar voru veittar fyrir þeim," segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. 

Stofnun segir, að Seðlabankinn hafi getað samkvæmt lögunum beitt eftirfarandi úrræðum til að draga úr vexti útlánanna:

  • Bindiskylda: Úrræðið hefði virkað 2006 og 2007 að mati forsvarsmannabankans en ekki eftir að markaðir lokuðust síðla árs 2007,
  • Lausafjárreglur: Voru notaðar hér áður fyrr en bankarnir geta farið í kringum þær að mati Seðlabankans, t.d. með því að gera skiptasamninga.

Eftirspurn eftir veðlánum jókst í ársbyrjun 2008

Snemma árs 2008 voru miklir erfiðleikar á krónumarkaði og  gjaldeyrismarkaði. Af þessum sökum jókst eftirspurn viðskiptabankanna eftir veðlánum frá Seðlabankanum. Samkvæmt tölum frá bankanum jukust veðlán á tímabilinu 1. janúar til 1. október 2008 úr 302 milljörðum í 502 milljarða. Mikið bar á krossveðum í tengslum við þessar lánveitingar
en þau felast í því að lántaki býður veð í verðbréfum sem annar aðili gefur út.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir, að fyrir liggi að hinir föllnu bankar öfluðu sér lausafjár með lánum frá minni fjármálafyrirtækjum
sem aftur fengu lán frá Seðlabankanum gegn ótryggum veðum. Spyrja megi  hvers vegna Seðlabankinn brást ekki fyrr við þessum „leik‘‘  bankanna og herti kröfur um veð gegn lánum til minni fjármálafyrirtækja. Að mati Ríkisendurskoðunar hefði þetta getað dregið úr því tjóni sem ríkissjóður og Seðlabankinn sátu uppi með eftir fall bankanna.

Í lok ársins 2008  námu kröfur Seðlabankans vegna  ótryggra veðlána hans til fjármálafyrirtækja. alls 345 milljörðum króna. Tap bankans nam 75 milljörðum en ríkissjóður yfirtók 270 milljarða til að koma í veg fyrir að Seðlabankinn færi í þrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert