Hart deilt á umhverfisskatta

Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Heiðar

Frumvarp fjármálaráðherra um umhverfis- og auðlindaskatta fær kaldar kveðjur frá stjórnarandstöðunni á Alþingi sem vill vísa málinu frá á ýmsum forsendum. Samkvæmt frumvarpinu á m.a. að leggja kolefnisgjald á eldsneyti og tímabundinn skatt á heitt vatn og rafmagn.

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði m.a. frumvarpið væri einstök flétta af heimsku og valdníðslu og svívirðileg árás á atvinnilífið í landinu. Ekkert uppbyggilegt væri í því, engin markmið og metnaður til að komast af stað. Nánast allir, sem hefðu veitt álit á frumvarpinu fyndu því allt til foráttu.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að orðanotkun Árna og málflutningur væri ekki svaraverður. Árni sagðist tala beinskeitt, mál sem Steingrímur ætti að skilja og skiljanlegt að hann svaraði ekki gagnrýni sinni því hann væri algerlega buxnalaus í málflutningnum. 

Steingrímur sagði að það hvarflaði stundum að sér að sumir í þessu þjóðfélagi væru farnir að gleyma því að það varð eitt stykki hrun haustið 2008. Sennilega væri ástæðan sú að það hefði gengið betur, einkum síðari hluta þessa árs, en menn hefðu þorað að vona.

„En það er einn hópur á þessu landi, sem aldrei á að gleyma hvað gerðist hér á landi haustið 2008 og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta hrun var sérstaklega á ábyrgð og í boði þess flokks og það þýðir ekki að koma hér upp og tala um bráðnauðsynlegar aðgerðir til að takast á við erfiðleikana sem hrunið skilur eftir sig og láta eins og ekkert hafi gerst," sagði Steingrímur.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist ekki finna þau umhverfisrök sem ættu að liggja að baki þessum sköttum heldur væri aðeins verið að afla ríkinu tekna og auka álögur á heimilin og fyrirtækin.

„Það er eins og einhver hafi staðið í sturtunni einn morguninn og hugsað: Aha, hér á eftir að skattleggja heita vatnið. Þetta er nýi sturtuskatturinn," sagði Ragnheiður Elín og sagði að kalla ætti hlutina réttum nöfnum.

Steingrímur sagði, að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins kæmu í ræðustól og veldu frumvarpinu öll þau ónefni, sem þeim kæmu í hug, þá yrði að minna þá á, að það væri ekki að ástæðulausu sem grípa þyrfti til þessara ráðstafana.

„Já, það er rétt, í þessu er fólgin tekjuöflun fyrir ríkið. En um leið eru hér innleiddir umhverfisskattar," sagði Steingrímur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert