Ákvörðun Íslands hneyksli

Jeremy Warner, aðstoðarritstjóri breska blaðsins Daily Telegraph, fjallar á vef blaðsins í dag um þá  „hneykslanlegu ákvörðun Íslands að neita að borga vegna föllnu bankanna."

„Nú er komið  nóg. Þeir munu örugglega ekki fá að ganga í Evrópusambandið nú. Þeir verða raunar heppnir ef við sendum ekki herskipin á þá," segir Warner.

Hann segir að í aðra röndina langi hann til að óska Íslendingum til hamingju með þá ákvörðun að neita að staðfesta lög um að endurgreiða yfir 5 milljarða dala sem breskir og hollenskir sparifjáreigendur töpuðu þegar íslensku bankarnir féllu. 

„Ég dáist að þeim, sem senda alþjóðlegri kúgun fingurinn og í þessu tilfelli var tilraun Breta til að beita hryðjuverkalögum til að endurheimta féð alger hneisa.

En við skulum ekki velkjast í vafa um hvað er að gerast hér. Ísland er að reyna að komast undan skuldbindingum sínum og það gengur ekki. Ég veit að ég mun kalla yfir mig reiði allrar íslensku þjóðarinnar með því að segja þetta en ef Bretar hefðu hagað sér eins og Íslendingar virðast ætla að gera, eða eitthvað annað stórt hagkerfi, hefði allt fjármálakerfið hrunið. Við höfum þurft að þola hrikalegar afleiðingar fjármálakreppunnar. Hvers vegna ætti Ísland að sleppa vegna þess að það er lítið?" spyr Warner. 

Hann lýkur greininni á þessum orðum: „Borgaðu, herra Grímsson, eða þorskurinn fær á baukinn." 

Grein Warners

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert