Ekki sjálfgefið að þjóðin kjósi um Icesave

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á fundi í Valhöll.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á fundi í Valhöll. mbl.is/Golli

„Mér finnst augljóst að forsetinn hefur með þessari ákvörðun komist að niðurstöðu sem er í samræmi við það sem hann hefur áður sagt. Það er samkvæmni í nálgun forsetans við málskotsréttinn í 26. grein. Að því leyti er ekki hægt að vera ósáttur við forsetann í þessu efni," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir að nú sé brýnt að líta á þessa stöðu sem tækifæri til að ná víðtækari sátt um málið. Tækifæri fyrir þingið til þess að sýna þjóðinni fram á að hægt sé að ná betri samstöðu um málið en gert hafi verið. ,,Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög dapurlegt að ríkisstjórnin skuli hafa valið þessa leið samráðsleysis og sundrungar, sem hefur komið málinu á þennan stað. Það stem stendur upp úr á þessum tímapunkti er hversu herfileg mistök það voru að staðfesta Icesave-samningana eins og þeir voru lagðir fyrir ríkisstjórnina í júní á síðasta ári. Það eru stóru mistökin sem gerð voru og hafa valdið þessum vandræðum," segir Bjarni.

Spurður um það hvað gerist næst í málinu segir Bjarni ekki alveg sjálfgefið að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram, eins og mælt er fyrir um í 26. grein stjórnarskrárinnar. Það ráðist af nokkrum þáttum.

„Það ræðst af viðbrögðum viðsemjenda okkar. Og það ræðst auðvitað af vilja stjórnarflokkanna í málinu. Mér finnst fleira en eitt koma til greina í þessu efni. En ég tel hins vegar alveg augljóst að þingið fer létt með það verkefni að setja reglur um það hvernig hún á að ganga fyrir sig," segir hann.

Hann telur því ekkert því til fyrirstöðu að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram, en slíkt hefur aldrei gerst áður í lýðveldissögunni. Þegar forsetinn synjaði í fyrsta sinn að skrifa undir lög, árið 2004, var viðkomandi frumvarp dregið til baka.

Stjórnarandstaðan hefur talað mikið um afleiðingar þess að samþykkja Icesave-samningana og borga, eins og málið er lagt upp. Hvílir þá á Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki einhver sérstök ábyrgð, eftir ákvörðun forsetans, á því að upplýsa þjóðina um það hvað gerist ef hún fellir lögin í atkvæðagreiðslu?

„Nei, veistu ég hef aldrei verið sammála þessum dómadagsspámönnum um að ef þessir afarkostir í Icesave-samningunum verði ekki samþykktir, þá bíði okkar einhverjar hörmungar. Í því er ágætt að rifja upp það sem einu sinni var sagt: Það er ekkert að óttast nema óttann sjálfan," segir Bjarni.

Hann segir að ekki eigi að vefjast fyrir neinum að Íslendingar séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum til lausnar málsins.

„Það var samþykkt á sumarþinginu að veita ríkisábyrgð í málinu. [...] Við höfum hins vegar gert ágreining um túlkun Evrópureglna. Það bara gengur ekki þannig fyrir sig hjá frjálsum vestrænum lýðræðisríkjum að þeir sem vilji láta reyna á rétt sinn séu teknir í gíslingu af alþjóðasamfélaginu. Þannig að ég óttast það ekki, ekki þessar afleiðingar sem margir svartsýnustu menn hafa sagt að við köllum yfir okkur með því að gera eitthvað annað en að samþykkja þessa þvingunarkosti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert