Gengu fylktu liði til Nauthólsvíkur

Nemendur og kennarar við HR gengu frá Ofanleiti til Nauthólsvíkur …
Nemendur og kennarar við HR gengu frá Ofanleiti til Nauthólsvíkur með fána í tilefni dagsins. mbl.is/Heiddi

Kennarar og nemendur við Háskólann í Reykjavík gengu fylktu liði frá Ofanleiti til Nauthólsvíkur þar sem ný skólabygging var tekin formlega í notkun í morgun. Þrjár deildir af fimm fluttu starfsemi sína í nýju bygginguna og hófst kennsla í húsnæðinu kl. 11:10.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, Svafa Grönfeldt, rektor HR, Ari Kristinn Jónsson, verðandi rektor HR og Sunna Magnúsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, fluttu ávörp í tilefni dagsins og var göngumönnum jafnframt boðið upp á heitt kakó.

Gestum var boðið að ganga um bygginguna og skoða hana.

Þrjár deildir HR af fimm flytja í nýbygginguna núna, tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptadeild. Lagadeild og kennslufræði- og lýðheilsudeild flytja svo í sumar og þá verður starfsemi HR öll undir einu þaki. Um 2.300 nemendur og 200 kennarar flytja núna í Nauthólsvík, en alls eru um 3.000 nemendur skráðir í nám við HR.

Fyrsta skóflustungan að nýja húsnæðinu var tekin árið 2007. Eignarhaldsfélagið Fasteign er eigandi hússins, ber ábyrgð á byggingunni og afhendingartíma og mun skólinn leigja húsið til næstu 50 ára með ákveðnum kaupréttarsamningi. Ístak er aðalvertaki byggingarinnar, en einnig koma margir undirverktakar að verkinu. Áætlað er að byggingarkostnaður verði í námunda við 12 milljarða króna þegar verkinu lýkur næsta haust.

Hönnuðir byggingarinnar eru ARKÍS og Henning Larsen Architects í Danmörku og verkfræðilegir hönnuður hússins eru Mannvit og Verkís. Landslagsarkitektar eru Landmótun.

Ekki var annað að sjá en að nemendur HR væru …
Ekki var annað að sjá en að nemendur HR væru ánægðir með nýja húsið. mbl.is/Heiddi
Svafa Grönfeldt, rektor HR, ávarpaði samkomuna í nýju húsakynnunum.
Svafa Grönfeldt, rektor HR, ávarpaði samkomuna í nýju húsakynnunum. mbl.is/Heiddi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert