„Ég hrökk við í bælinu“

Enn er verið að sprengja í Bolungarvíkurgöngum.
Enn er verið að sprengja í Bolungarvíkurgöngum.

„Ég hrökk við í bælinu, þetta voru djöfuls læti,“ segir Finnbogi Hermannsson, fréttamaður í Hnífsdal, þegar hann lýsir sprengingum sem hristu Hnífsdal í gærkvöldi. Ekki er víst hvað margir urðu varir við þetta því flestir íbúarnir voru að skemmta sér á þorrablóti í félagsheimilinu.

„Þetta voru eins og kjarnorkusprengingar. Ég hélt að þær væru uppi í himinhvolfinu eða úti á sjó. Ég reis úr bæli mínu frá bókinni og fór út á tröppur eins og ég er vanur. Þar sem ég sá ekki neitt hringdi ég í lögregluna. Þá hafði lögreglumaðurinn heyrt þetta alla leið út á Ísafjörð en taldi að hurð hefði verið skellt fast,“ segir Finnbogi og tekur fram að hann hafi verið að lesa æviminningar Hallgríms Jónssonar lögregluþjóns.

Lögreglan fékk tilkynningu um hávaða í Hnífsdal klukkan 21.38 í gærkvöldi. Lögreglumennirnir fóru út í Hnífsdal til að kanna málið. Í fyrstunni fundu þeir ekki skýringar, ekki fyrr en þeir náðu sambandi við menn sem vinna við gerð jarðganganna milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Kom þá í ljós að þeir höfðu verið að sprengja utarlega í göngunum, Hnífsdalsmegin.

Finnbogi segir að íbúarnir hafi talið sprengingum í göngunum lokið. Þeir hefðu fundið fyrir þeim í tvö ár og þær hefðu alltaf verið dýpra en þó svo öflugar að postulínshundarnir hefðu glamrað.

„Já, þetta var ónotalegt. Ég var hins vegar líklega einn af fáum Hnífsdælingum sem var edrú, það voru allir að skemmta sér í félagsheimilinu,“ segir Finnbogi. Hann hafði ekki fréttir af viðbrögðum á þorrablótinu en Félagsheimili Hnífsdals er rétt undir gangaopinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert