Fornir kálgarðar í hættu

Stefnt er að byggingu nýrrar smábátahafnar í Flatey á Breiðafirði.
Stefnt er að byggingu nýrrar smábátahafnar í Flatey á Breiðafirði. Mbl.is/Árni Sæberg

Gert er ráð fyrir nýrri smábátahöfn við Innstapoll í Flatey á Breiðafirði, samkvæmt tillögum að breytingum á aðalskipulagi Reykhólahrepps sem auglýst hefur verið. Nokkrir fornir kálgarðar við Hólsbúðarvog eru taldir í hættu vegna framkvæmdarinnar.

Uppbygging á nýju hafnarsvæði í Flatey er rökstudd með fjölgun ferðafólks til eyjarinnar. Sumarið 2009 voru 14 þúsund manns fluttir með ferjunni Baldri til og frá Flatey. Þá fjölgar minni bátum sem þangað koma bæði skútum og skemmtibátum.

Sóknarfæri eru talin í aukinni þjónustu við ferðafólk, svo sem með útsýnisferðum á minni bátum. Við flutninga á milli Flateyjar og inneyja eru notaðir minni  bátar en aðstaða til að koma fólki og farangri í bátana er oft á tíðum erfið við núverandi ferjubryggju.

Gerðar voru athuganir á nokkrum öðrum stöðum fyrir höfn í Flatey. Minna efni þarf í skjólgarða hafnar við Innstapoll en á öðrum stöðum. Áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd eyjarinnar eru því talin minni.

Við Innstapoll verða gerðir tveir grjótgarðar, um 40 metra langir. Efnið úr dýpkuninni verður notað í garðana.

Fram kemur að samkvæmt bráðabirgðaskráningu á fornleifum í Flatey verði nokkrir kálgarðar við Hólsbúðarvog í hættu vegna framkvæmdanna. Fornleifavernd ríkisins leggur til að kálgarðarnir verði mældir upp og ljósmyndaðir. Það hefur þegar verið gert, að því er fram kemur í greinargerð með skipulagstillögunni.

Á sama tíma er auglýst breyting á aðalskipulagi í Bjarkarlundi í Reykhólasveit. Gert er ráð fyrir þremur íbúðarhúsum í stað jafn margra sumarhúsa samkvæmt núgildandi skipulagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert