Hafnar því að rannsóknargögnum sé lekið

Ólafur Þór Hauksson.
Ólafur Þór Hauksson. mbl.is/Golli

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er hafnað, að rannsóknargögnum sé lekið í fjölmiðla af hálfu starfsmanna embættisins enda hafi ekkert komið fram sem bendir til þess.

Segir í yfirlýsingunni, að verjendur sakborninga fái gögn um rannsóknir, sem fara fram á vegum embættisins.  Sá greiði aðgangur, sem lög veiti verjendum að gögnum máls á meðan á rannsókn stendur, geri það að verkum að rannsóknargögn geti farið víðar án þess að embætti sérstaks saksóknara geti spornað við því.

Yfirlýsingin er eftirfarandi: 

Vegna umræðu um meintan leka rannsóknargagna frá embættis sérstaks saksóknara vill sérstakur saksóknari koma eftirgreindu á framfæri:

Sérstakur saksóknari hafnar því að rannsóknargögnum sé „lekið" í fjölmiðla af hálfu starfsmanna hans enda hefur ekkert komið fram sem bendir til þess.

Sérstakur saksóknari og aðrir rannsóknaraðilar hafa síður en svo hag af því að rannsóknarupplýsingar séu birtar í fjölmiðlum.

Bent er á að gögn um rannsóknir hafa verið afhent verjendum sakborninga í málum sem eru til rannsóknar við embættið. Þetta er í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála.  Meginregla um afhendingu gagna til verjenda er að finna í  1. mgr. 37. gr. þeirra laga en samkvæmt henni skal verjandi jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans. Ákvæðið nær einnig til mála sem eru á rannsóknarstigi.

Af þessu leiðir að starfsmenn embættisins eru ekki einu aðilarnir sem aðgang hafa að rannsóknargögnunum mála eftir að skjöl hafa verið afhent verjendum. Þegar verjandi hefur fengið aðgang að gögnum máls þá er honum heimilt að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af þeim eða kynna honum þau með öðrum hætti.

Sá greiði aðgangur sem lög veita verjendum að gögnum máls á meðan á rannsókn stendur gerir það að verkum að rannsóknargögn geta farið víðar án þess að embætti sérstaks saksóknara geti spornað við því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert