Dæmdir fyrir tilraun til fjárkúgunar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í 15 mánaða fangelsi fyrir húsbrot, rán, eignaspjöll og tilraun til fjárkúgunar með því að ryðjast inn á heimili manns í Reykjanesbæ, veitast að honum með hnífi og hóta honum  stórfelldum líkamsmeiðingum ef hann greiddi ekki fíkniefnaskuld.

Mennirnir tveir, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, voru einnig dæmdir til að greiða manninum, sem þeir veittust að, 400 þúsund krónur í bætur.

Mennirnir tveir ruddust inn í hús mannsins í febrúar á síðasta ári. Þeir tóku m.a. fartölvu ófrjálsri hendi og neyddu húsráðandann til að fara inn í bíl með þeim. Þeir óku síðan til Reykjavíkur og ógnuðu manninum með hnífi á leiðinni og hótuðu að ganga frá honum ef hann greiddi ekki skuldina. Þeir létu hann einnig hringja í fósturföður sinn og viðhöfðu sömu hótanir.

Lögreglan stöðvaði bíl mannanna við Kleppsveg í Reykjavík og handtók þá. Annar mannanna kastaði þá frá sér pakka með rúmum 28 grömmum af amfetamíni en hinn, sem ók bílnum, var einnig undir áhrifum fíkniefna.

Mennirnir játuðu brot sín að mestu. Annar þeirra hefur áður verið dæmdur fyrir rán og innflutning fíkniefna. Hinn var hins vegar talinn hafa stýrt aðgerðunum. Sá hefur nú gengist undir meðferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert