Landsvirkjun telur sig hafa uppfyllt skilyrðin

Frá framkvæmdum við Kárahnjúkastíflu.
Frá framkvæmdum við Kárahnjúkastíflu. mbl.is/ÞÖK

Landsvirkjun telur sig í einu og öllu hafa uppfyllt  skilyrði, sem sett voru í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Umhverfisráðuneytið hefur falið Umhverfisstofnun að kanna hvort farið hafi verið eftir skilyrðunum.

Fram kom í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu í dag, að Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, hafi borist ábendingar um að skilyrði í úrskurði ráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar hafi ekki verið uppfyllt.

Landsvirkjun segir að frá árinu 2003 hafi starfað sérstök eftirlitsnefnd til að fylgjast með þessu og sitji í henni fulltrúar sveitarfélaga á svæðinu sem gáfu út framkvæmdaleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun, svo og fulltrúi iðnaðarráðherra, sem gaf út virkjunarleyfi og fulltrúi umhverfisráðherra.

„Landsvirkjun hefur reglulega gefið nefnd þessari skýrslu um það hvernig skilyrðin hafa verið uppfyllt. Fyrirtækið vinnur nú að lokaskýrslu um málið sem reiknað er með að verði tilbúin um miðjan apríl.  Landsvirkjun hafa engar ábendingar eða athugasemdir borist sem benda til þess að skilyrðin hafi ekki verið uppfyllt. Landsvirkjun mun að sjálfsögðu upplýsa Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið um málið ef eftir því verður leitað.  Finnist eitthvað athugavert mun fyrirtækið bæta þar úr," segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert