Samkomulag um þrjú mál

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar skrifuðu undir stöðugleikasáttmálann á síðasta ári.
Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar skrifuðu undir stöðugleikasáttmálann á síðasta ári.

Ríkisstjórnin og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafa náð samkomulagi um framgang þriggja mála sem ágreiningur hefur verið um. Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ hafa stjórnvöld fallist á að koma til móts við gagnrýni ASÍ varðandi greiðslur vegna starfsendurhæfingar, lögbindingu framlaga í fræðslusjóð og um stofnun Vinnumarkaðsstofnunar.

Fundir hafa verið haldnir um þessi mál og framgang stöðugleikasáttmálans undanfarna daga og féllst ríkisstjórnin á að lögbinda greiðslur í fræðslusjóði atvinnulífsins, sem hefur verið kappsmál verkalýðshreyfingarinnar.

ASÍ hefur gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir vanefndir á samkomulagi um greiðslur vegna starfsendurhæfingar og lögbindingu á greiðsluskyldu atvinnurekenda sem standa utan SA og lífeyrissjóða. Ríkisstjórnin hefur nú fallist á að leggja fram frumvörp til að lögfesta gjald í Starfsendurhæfingarsjóð.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að sú breyting eigi að tryggja að allir félagsmenn ASÍ muni njóti réttinda til starfsendurhæfingar.

Þá hefur náðst niðurstaða varðandi ágreining sem verið hefur vegna frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra um stofnun Vinnumarkaðsstofnunar, sem verður til með sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins. Þessari nýju stofnun er ætlað að gegna lykilhlutverki við þróun vinnumarkaðar á Íslandi í framtíðinni. ASÍ hafði gagnrýnt að færa eigi allt vald  í hendur ráðherra og forstjóra stofnunarinnar og ekki gert ráð fyrir samstarfi og samábyrgð aðila vinnumarkaðarins á þessum málefnum.

Að sögn Halldórs er málinu ekki að öllu leyti lokið en samkomulag hafi þó náðst um breytingar á frumvarpinu, þar sem tryggt verði að starfsemi hennar byggi á þríhliða samráði aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um málefni vinnumarkaðarins. Það endurspeglist bæði í væntanlegri löggjöf um þessa nýju stofnun og í starfsemi hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert