Hitta ríkisstjórnina í dag

Askan sem féll á Mýrdalssandi var afar fíngerð og þyrlaðist …
Askan sem féll á Mýrdalssandi var afar fíngerð og þyrlaðist upp þegar bílum var ekið austur eftir Suðurlandsvegi í gær, inn í gosmökkinn. Ómar Óskarsson

Almannavarnir munu eiga fund með ríkisstjórninni kl. 9:30 í dag og upplýsa hana um afleiðingar gossins og þær hættur sem gosið og hlaup frá Eyjafjallajökli valda almenningi. Almannavarnarnefndir víða um land munu funda í dag til að fjalla um hættu af öskufalli. Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins kemur saman í dag.

Mökkurinn frá eldgosinu fer núna norðar en hann gerði í gær. Ekkert öskufall er því í Álftaveri, Meðallandi og Skaftártungu. Vindátt mun hins vegar breytast þegar líður á daginn. Spáð er nokkuð hvassri norðanátt. Þá má búast við öskufalli í Vík, undir Eyjafjöllum og jafnvel í Vestmannaeyjum. Eyjarnar gætu þó sloppið.

Ekkert öskufall er á Mýrdalssandi og hann er opinn. Þjóðvegur 1 er lokaður við Þorvaldseyri og við Þverá við Hvolsvöll.

Vegagerðarmenn eru núna að meta aðstæður við Markarfljótsbrú. Skarðið austan við brúna hefur stækkað. Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna, segir að menn telji að það sé 400 metra breitt. Hann sagði að flætt hefði yfir hin tvö skörðin sem búið var að fylla í. Vegurinn þar er lægri en efnið er gróft og því rann það ekki í burtu.

Varnargarðarnir stóðust álagið nema landgræðslugarðurinn við Þórólfsfell inni í Fljótsdal. Hann er skemmdur. „Þessi garður tekur ákveðinn kraft úr hlaupinu. Ef hann gefur sig meira þá fer að reyna meira á varnargarða neðar í Fljótshlíð. Þeir eru búnir að standa sig betur en við reiknuðum með að þeir myndu gera. Veikasti punkturinn er við Háamúla og við höfum áhyggjur af honum,“ sagði Víðir.

Aðeins fjórðungur íssins hefur bráðnað

Almannavarnanefnd á Hellu kemur saman kl. 11 og vísindamenn munu fara yfir stöðu mála með nefndinni. Almannavarnanefnd víða um land munu koma saman í dag. Almannavarnanefndirnar á Hornafirði, Vestmannaeyjum, Árnessýslu og höfuðborgarsvæðisins mun hittast í dag. Það er einkum öskufallið sem þessar nefndir eru að ræða.

Það er enn nægur ís í Eyjafjallajökli sem gosið getur brætt. „Það var mat Magnúsar Tuma Guðmundssonar í gærkvöldi að það væri ekki meira en fjórðungur af þeim ís sem gæti bráðnað í öskjunni sé bráðnaður núna. Ef að þetta gos heldur áfram má búast við flóðum frá jöklinum með reglulegu millibili,“  sagði Víðir.

Götin í Eyjafjallajökul minna á andlit.
Götin í Eyjafjallajökul minna á andlit.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka