10-15% af ísnum hefur bráðnað

Gríðarlegt öskufall er undir Eyjafjöllum.
Gríðarlegt öskufall er undir Eyjafjöllum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eldgosið hefur verið stöðugt í dag, mökkurinn rís í 6-9 km hæð og leggur til suðurs. Það gýs úr eins km langri sprungu sem liggur frá norðri til suðurs í suðvesturhluta toppgígsins. Um 100-150 milljón rúmmetrar af ís hafa bráðnað í öskjunni en það er á milli 10 og 15% af þeim ís sem þar er.

Sigkatlar í ísnum eru það stórir að gjóska er farin hlaðast upp í gíg sem einangrar ís frá kvikurásinni. Lítill ís virðist vera að bráðna en nægt vatn kemst samt að kvikunni til að sprengivirkni haldi áfram.  Flóð hefur ekki orðið frá því í gærkvöldi.


Gott veður er á Suðurlandi og gott útsýni til gosstöðvanna.   Mikil öskumyndun hefur verið og tilkynningar hafa borist um mikið öskufall undir Eyjafjöllum.  Um tíma var öskufall svo mikið á svæðinu frá Núpi að Skógum að ekki sást á milli stika.  Ekkert flóð hefur komið frá jöklinum síðasta sólarhringinn.
 
Innanlandsflug hefur að mestu gengið samkvæmt áætlun, en þó hefur ekki verið flogið til Vestmannaeyja. Rétt fyrir kl. 14:00 hafði ekki fallið aska á svæðinu. Langflestir flugvelli í Evrópu eru lokaðir, einungis er unnt að fljúga í Suður-Evrópu. Samkvæmt öskudreifingarspá verða ekki verulega breytingar á næstunni.  Þjóðvegur 1 hefur verið lokaður frá Hvolsvelli að Skógum.  Einnig hefur Fljótshlíðarvegur verið lokaður austan Smáratúns.  Mikil umferð ferðamanna hefur verið á svæðinu og var brugðið á það ráð að hleypa bílum inn á tún í Fljótshlíðinni þar sem gott útsýni er til gosstöðvanna.  Björgunarsveitir Landsbjargar hafa sinnt lokunum á vegum á sex stöðum í dag og mannað eftirlitspóst á Þórólfsfelli.  Þá hafa björgunarsveitir ekið á milli bæja og kannað ástandið. Á svæðinu eru 160 manns frá 12 björgunarsveitum.  Þrjú vísindaflug voru farin yfir gosstöðvarnar í dag. 
 
Starfshópur um áfallahjálp kom saman á Hellu í morgun og þar var upplýst að ekki hafa komið fram sérstök heilsufarsvandamál tengd eldgosinu. Lítið hefur verið hringt í 112 frá gossvæðinu.  Sóttvarnayfirvöld héldu fund í Samhæfingarstöðinni í morgun ásamt fulltrúa heilbrigðisstarfsmanna.

Aðilar ferðaþjónustunnar funduðu í dag með fulltrúum utanríkisráðuneytis og fulltrúa almannavarna.  Þar kom fram að um 1800 farþegar bíða eftir flugi frá landinu.  Vel fer um alla og rólegt ástand.  Brugðið hefur verið á það ráð að bjóða upp á gestakort sem veitir aðgang að söfnum og sundlaugum. Er mikil ánægja með þessa ráðstöfun.  Engir farþegar eru fastir í Leifsstöð.
 
Í kvöld er gert ráð fyrir norðvestanátt en vestan og suðvestan  átt, 5-13 m/sek á morgun sunnudag. Búast má við öskufalli frá Austur Eyjafjöllum austur að Mýrdalssandi, en að öllum líkindum verður öskufall mest í námunda við Mýrdalsjökul.
 
Deildarstjóri almannavarna sat í dag tvo símafundi, annars vegar með almannavarnayfirvöldum í Evrópu og hins vegar með fulltrúum almannavarnastofnana  á Norðurlöndunum.   Á þessum fundum voru þjóðir Evrópu upplýstar um stöðu mála hér á landi  og hugsanlega framvindu eldgossins,  Einnig gáfu  þjóðirnar í Evrópu upplýsingar um helstu viðbrögð sín.  Áherslur landanna eru mismunandi.  Fulltrúar Evrópuþjóðanna báðu fyrir góðar kveðjur til Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert