Gosið svipað og í gær

Gosvirknin í Eyjafjallajökli virðist nokkuð stöðug en gosmökkurinn hefur minnkað lítillega frá því í gær. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka, að sögn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Undir þetta tekur Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Bendir hann á að gosið sé sérstakt miðað við önnur gos hérlendis sökum þess hversu langdregið það virðist ætla að verða. 

„Langflest gos hérlendis byrja af miklum krafti, en fjara síðan út. Gosið í Eyjafjallajökli er t.d. kröftugra núna heldur en í upphafi, að undanskildum allra fyrstu dögunum,“ segir Magnús Tumi.

Bendir hann á að ennþá komi ný kvika að neðan. „Meðan svo er þá má búast við því að gosið endi ekki í bráð. Menn verða að búa sig undir að þetta taki einhvern tíma.“

Að sögn Jarðvísindastofnunar er gosmökkurinn að jafnaði um 4-5 km hár samkvæmt veðurratsjá en fer hæst í um 6 km og stefnir í austsuðaustur. Tilkynningar hafa í dag borist um öskufall í Vík í Mýrdal og í Meðallandi. Þá var rykmistur og um 200–300 metra skyggni á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri.

Fjöldi eldinga mældust á eldingamælum bresku veðurstofunnar á tímabilinu frá klukkan 15:17 í gær fram að hádegi í dag en engar tilkynningar hafa borist um gosdrunur.

Vatnsrennsli við Gígjökul er lítið eins og undanfarna daga. Á vefmyndavélum sjást meiri gufubólstrar við hraunjaðarinn en í gær, svo líklega hefur ísbráðnun aukist.

Gosórói er nokkuð stöðugur og hefur verið svipaður síðustu sólarhringa. Örfáir jarðskjálftar mældust undir jöklinum seinasta sólarhring, allir undir 2 stigum að Richter. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert