ASÍ: Ekki verði veitt atvinnuleyfi utan EES

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

Alþýðusamband Íslands krefst þess að ekki verði veitt atvinnuleyfi utan EES svæðisins á meðan atvinnuleysi er hátt á Íslandi. Þetta kemur fram í kjölfarið á viljayfirlýsingu sem Landsvirkjun gerði við kínverska verktakafyrirtækið China International Water & Electric Corporation (CWE) og kínverska bankann Export-Import Bank of China (Exim Bank).

„Þegar það er á þriðja tug prósenta atvinnuleysi í byggingargeiranum, þá er auðvitað galið að veita atvinnuleyfi,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. „Þar að auki erum við bundin af skuldbindingum gagnvart Evrópuríkjum að gera það ekki.“

Hann segir að erfitt sé að keppa við Kínverja um ódýrt vinnuafl. „Samkvæmt Alþjóða viðskiptamálstofnuninni er heimilt að beita Kínverja viðskiptaþvingunum vegna þess að þeir viðurkenna ekki mannréttindi og brjóta þau. Ríki utan EES njóta ekki sama aðgengis að vinnumarkaðinum eins og ríki innan svæðisins. Þetta er hluti af alþjóðlegum skuldbindingum okkar,“ segir Gylfi.

„Þessi staða lýsir í hnotskurn þeim vanda sem hlýst af því að Ísland hefur ekki aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum vegna þess að ríkisstjórn og Alþingi hefur ekki tekist að leysa úr þeirri flækju, sem synjun forseta Íslands á lögunum um Icesave, hefur valdið,“ segir Gylfi. Hann telur að sá skaði sem hljótist af töf íslenskra stjórnvalda í Icesave-deilunni, muni reynast Íslendingum kostnaðarsamari en sem nemur skuldbindingunni í samningnum.

„Við höfum ekki aðgengi að fjármagni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum til að byggja upp okkar atvinnulíf. Það liggur fyrir í yfirlýsingum bæði evrópska- og norræna fjárfestingabankans,“ segir Gylfi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert