ASÍ og SFR greinir á um loforð

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson Eggert Jóhannesson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segist ekki vita til þess að ríkisstjórnin hafi lofað að ekki kæmi til uppsagna opinberra starfsmanna og legið hafi fyrir að neikvæð áhrif aðgerða stjórnvalda til að mæta samdrætti í tekjum myndu ná til opinberra starfsmanna. Áhrifin myndu fyrst ná til launafólks á almennum vinnumarkaði en ekki fyrr en árið 2011 til opinbera geirans. 

Segir Gylfi að hafi loforð af þessu tagi verið gefið lýsi það þeim heilindum sem að baki væru samstarfi ríkisstjórnarinnar og fulltrúa launþega. Segir hann stjórnina og Alþingi hafa brugðist með algeru úrræðaleysi í atvinnumálum.

Kemur þetta fram í svarbréfi Gylfa við leiðara Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR, í leiðara sumarheftis SFR-blaðsins. Yfirskrift leiðarans er „Uppsagnir hjá ríkinu vafasamur sparnaður“ og í honum segir meðal annars: „SFR telur sig hafa loforð ríkisstjórnarinnar um að uppsögn starfsmanna verði síðasta úrræðið og það verði ekki gert nema í algjörri neyð.“

Gylfi segir Árna reyna að stilla félagi sínu upp sem nafla alheimsins og þykir ósvífið að hann skuli stilla SFR upp sem sérstökum verndara velferðar á Íslandi.

Þess hefur verið krafist að ekki verði hreyft við lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og segir Gylfi að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi tekið undir það. Að þessum sökum hafi ASÍ krafist þess að ekki verði hreyft við bótum almannatrygginga. Telur Gylfi að aldrei yrði sátt um það í landinu að skjaldborg um lífeyri borgaranna næði aðeins til opiberra starfsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert