Skuldavandi heimilanna best leystur með samstarfi flokka

Allt of margir Íslendingar eru þjakaðir af skuldum, fjárhagsáhyggjum og vantrú á framtíðina, segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í ávarpi sínu til landsfundar flokksins sem stendur yfir í Laugardalshöllinni. Bjarni segir að skuldavandi heimilanna verði best leystur með þverpólitísku samstarfi og Sjálfstæðisflokkurinn hafi talað fyrir slíku samstarfi frá því að kosið var.

„Vandamál fjölskyldna eru mikil og því miður hafa ríkisafskiptaflokkarnir aðeins sett fram flóknar og óraunhæfar lausnir sem einfaldlega virka ekki. Hversu góður sem ásetningurinn var er staðreyndin sú að úrræðin eru ekki að gagnast fólki. Í þeim er ekkert hald.

Norræna velferðarstjórnin, sem allir sjá að stendur ekki undir nafni, verður að átta sig á því að fólk er ekki tilbúið til að fara í langar biðraðir í héraðsdóm til að fá lausn sinna mála. Það verður ekki allt leyst með nýjum opinberum stofnunum og réttarfarsúrræðum," segir Bjarni.

Að sögn Bjarna kom Hæstiréttur til aðstoðar þegar ríkisstjórnin brást og fellir niður gengistryggingu lánasamninga. „Það stóð ekki á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra tók fram að réttindi lántakenda yrðu ekki skert frá því sem Hæstiréttur hafði ákveðið.

Að réttindi lántakenda yrðu ekki skert frá því sem Hæstiréttur hafði ákveðið. Þetta var afar mikilvæg yfirlýsing, því allir gerðu náttúrulega ráð fyrir því að ríkisstjórnin myndi halda áfram að vinna gegn hagsmunum heimilanna.

Skuldavandi heimilanna verður best leystur með þverpólitísku samstarfi og Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir slíku samstarfi frá því að kosið var og stóð síðast í gær að úrbótum á lögum á þinginu. En það þarf skjótvirkari úrræði og tregða stjórnarinnar til að ræða almennari aðgerðir, t.d. svigrúm til höfuðstólsleiðréttingar, er óskiljanleg," sagði Bjarni í setningarávarpi sínu.

Bjarni kom inn á ábyrgð fjármálafyrirtækjanna í landinu. „Það er skilyrðislaus krafa að þeir sem véla um málefni fjölskyldnanna hafi í huga langtíma hagsmuni samfélagsins alls við þessar erfiðu aðstæður. Það sem fjármálastofnanirnar verða að skilja er að þeirra langtímahagsmunir fara saman við hagsmuni heimilanna."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert