Ekki boðlegir stjórnsýsluhættir

Orkuver HS Orku.
Orkuver HS Orku.

Borgarahreyfingin og Hreyfingin segjast í tilkynningu lýsa yfir fullum stuðningi við Björk Sigurgeirsdóttur, fulltrúa sinn í nefnd um erlenda fjárfestingu. Björk myndaði ásamt fulltrúa Vinstri grænna minnihluta í nefndinni og vildi ekki heimila Magma Energy Sweden að kaupa HS Orku.

Í tilkynningunni segir, að nefndin hafi klofnað í afstöðu sinni þar sem um málamyndagjörning hafi verið að ræða og sniðgöngu á þeim íslensku lögum sem banna aðilum utan EES að fjárfesta í orkufyrirtækjum.

„Það eru alls ekki boðlegir stjórnsýsluhættir í siðmenntuðum ríkjum að láta þrönga bókstafstúlkun laga ráða mikilvægum ákvörðunum sem varða þjóðarhag og yfirráð yfir auðlindum landsins. Þess er krafist að málið verði aftur tekið fyrir í ljósi nýrra upplýsinga um að Magma Energy Sweden sé skúffufyrirtæki með enga raunverulega starfsemi og engan annan tilgang en að fara á svig við íslensk lög og reglugerðir EES," segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig, að tilgangur reglugerðar EES um fjárfestingu á milli ríkja sé að opna markað fyrir fyrirtæki innan sambandsins en ekki utan. „Í stað þess að opna fyrir óhindruð viðskipti fjölþjóðlegra fyrirtækja með eigin hagnað að markmiði, vilja Borgarahreyfingin og Hreyfingin beina þeim eindregnu tilmælum til yfirvalda að láta þjóðina sjálfa úrskurða um yfirráð á auðlindum landsins."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert