Fjölmenni á Skötumessu

Skötumessan var vel sótt.
Skötumessan var vel sótt. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Fjölmenni safnaðist saman í Miðgarði, nýjum samkomusal Gerðaskóla í Garði, í gærkvöldi til að taka þátt í Skötumessu á Þorláksmessu á sumri. Bæjarstjórinn í Garði segir að á fjórða hundrað manns hafi skemmt sér og borðað skötu til góðs.

„Við ætlum að styðja sambýli í Heiðarholti í Garði, heimili fatlaðra á Völlum og MND-félagið,“ segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, og bætir við að hægt verði að styrkja þessi verkefni myndarlega.

„Við erum búin að gera þetta nokkur undafarin ár og það er alltaf að fjölga fólkinu sem kemur,“ segir hann og bætir við að skemmtiatriðin hafi verið af ýmsum toga. Menn hafi m.a. tekið lagið og sagt sögur, m.a. þeir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Þetta er fjölskyldustemning og þetta er fólk sem kann að meta góðan íslenskan mat og siði, sem mætir.“

Boðið var upp á skötu, sem fyrr segir, auk saltfisks og hvals. „Að ógleymdri hinni ástsælu hamsatólg, sem er alveg nauðsynleg hverjum manni,“ segir Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert