Gagnrýnir framkomu stjórnmálamanna í Magma-máli

Helgi Magnússon.
Helgi Magnússon.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að framkoma margra stjórnmálamanna í Magma-málinu svonefnda sé ekki til þess fallin að auka traust á íslensku samfélagi og verði ekki til þess að hraða endurreisn efnahagslífsins hér á landi.

Haft er eftir Helga á vef SI, að framkoma íslenskra stjórnvalda við þau fáu erlendu fyrirtæki, sem vilji fjárfesta hér á landi er algerlega óviðunandi.  Framkoma stjórnvalda við fyrirtæki eins og Magma Energy og Alcoa á Íslandi sé með þeim hætti að orðspor þjóðarinnar út á við skaðast og líkur á samstarfi við erlenda fjárfesta minnki til mikilla muna, einmitt á þeim tíma þegar Íslendingar þurfi mest á öflugu og farsælu samstarfi við erlenda fjárfesta að halda.

Þá segir Helgi, að það sé ekki rétt mat hjá Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, að Alcoa hafi ekki sýnt þann áhuga, sem búist var við, varðandi nýtt álver á Bakka. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Samtök iðnaðarins hafi sé þetta ekki rétt mat því Alcoa hafi þvert á móti sýnt atvinnuuppbyggingu á svæðinu mikinn áhuga um langt skeið og varið umtalsverðum fjármunum til rannsókna og undirbúnings.

Hins vegar þurfi stjórnvöld að upplýsa hve mikil orka verði í boði á svæðinu og á hvaða verði. Enginn fjárfestir geti ráðist í verkefni í orkufrekum iðnaði án þess að hafa fullvissu fyrir því að orka sé til staðar á samkeppnishæfu verði. Boltinn sé því hjá stjórnvöldum.

Vefur Samtaka iðnaðarins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert