Sorpa styrkti Reykjadal

Ernir Eyjólfsson

Í fréttatilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra segir að mikill fögnuður hafi brotist út á sumarlokahátíð sumarbúðanna í Reykjadal í dag þegar framkvæmdastjóri Sorpu styrkti söfnun Reykjadals um 7,5 milljón króna.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur rekið sumarbúðir fyrir börn á aldrinum 5-23 ára í Reykjadal í tæp 50 ár en einnig boðið upp á helgardvalir yfir vetrartímann.

Næstkomandi vetur hefur staðið til að bjóða ekki upp á þessar helgardvalir sökum fjárskorts. Því var hrint af stað söfnun til styrktar áframhaldandi starfi í Reykjadal og er stefnt að því að safna a.m.k. 15 milljónum króna.

Styrkurinn frá Sorpu var því kærkomin sending en hápunktur söfnunarinnar er á þriðjudaginn kemur.

Þá munu starfsmenn ganga með einhvern sitjandi í hjólastól frá Laugalandi í Holtum, þar sem að einnig eru sumarbúðir á vegum SLF, í Reykjadal og þaðan að húsakynnum Styrktarfélagsins að Háaleitisbraut 13.

Vegalengdin er ca 130 km. Áætluð koma að Háaleitisbraut verður um kl. 14:00 miðvikudaginn 18. ágúst.

Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á söfnunarreikninginn: 549-26-10 kt.630269-0249.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert