Neitaði eftirlitsnefnd um upplýsingar

Íslandsbanki neitaði að afhenda eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun skýrslur innri og ytri endurskoðanda bankans. Nefndin fékk heldur ekki skýrslu frá Arion banka um útlánastefnu við endurfjármögnun.

Eftirlitsnefndin óskaði eftir að fá frá bönkunum þann hluta skýrslna endurskoðendanefnda og innri endurskoðenda sem vörðuðu starf nefndarinnar. Vildi nefndin vita hvort til væru skýrslur um útlánastefnu við endurfjármögnun og hvort kjör væru innan eðlilegra marka, upplýsingar um innheimtumál og meðferð greiðsluerfiðleikamála, þ.e. hvort verklagsreglum væri fylgt í málefnum skuldara og hvort gætt væri samræmis og jafnræðis við afgreiðslu mála.

Arion banki gaf þau svör að endurskoðunarnefnd og innri endurskoðandi bankans hefðu ekki skilað skýrslum um þessi atriði. Landsbankinn skilaði skýrslu til nefndarinnar sem eftirlitsnefndin taldi vera til fyrirmyndar.

Íslandsbanki neitaði hins vegar eftirlitsnefndinni um aðgang að skýrslum endurskoðunarnefndar, innri endurskoðanda og ytri endurskoðanda bankans með þeim rökum að skýrslurnar komi lítt inn á starfsvið nefndarinnar.

Nefndin er ekki sammála þessu mati og telur að það sé á verksviði endurskoðunarnefndar og innri endurskoðanda að kanna hvort verkferlum sé framfylgt innan fjármálafyrirtækja.

Í skýrslu eftirlitsnefndarinnar kemur fram að 437 einstaklingar hafa farið fram á sértæka skuldaaðlögun. Erindi frá 128 hafi verið samþykkt, 78 hafnað og 231 erindi séu enn í vinnslu. Arion banki hefur fengið flest erindi eða 170 og hefur samþykkt 80 en engu hafnað. Íslandsbanki hefur fengið 64 erindi, samþykkt 9 og hafnað 6. Landsbanki hefur fengið 37 erindi, samþykkt 6 og hafnað 18. Byr hefur 96 erindi, samþykkt 23 og hafnað 37.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert