Rætt við AGS um breyttar aðstæður

Úr höfuðstöðvum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Úr höfuðstöðvum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Reuters

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að nú stæðu yfir samtöl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, meðal annars um þær hugmyndir sem hefðu komið fram um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

Jóhanna var að svara fyrirspurn frá Einari K. Guðfinnssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um samstarf stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sagði Einar m.a. að, ríkisstjórnin hefði í september lýst því yfir sem hluta af þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins, að ekki verði gripið til almennrar skuldaniðurfellingar. Samt hefði málið verið rætt eins og það væri enn á dagskrá. 

Jóhanna sagði, að þótt skrifað hafi verið undir þriðju endurskoðun efnahagsáætlunarinnar eins og Einar lýsti, „þá er þetta nú ekki alveg í gadda slegið, að það sé ekki hægt að endurskoða ýmis atriði ef aðstæður breytast ef það er gert í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það höfum við gert." 

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði, að hluti þingflokks VG hefði mótmælt því að samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur verið framlengt um samtals 9 mánuði. 

Lilja sagði, að framlenging á samkomulagi við AGS hefði ekki verið borin undir þingflokk VG, hvorki 6 mánaða framlenging né 3 mánaða framlenging, sem samið hefði verið um.

Hún sagðist vera þeirrar skoðunar að ljúka eigi samstarfinu við AGS nú 30. nóvember eins og upphaflega hefði verið ráðgert. Ástæðan væri sú, að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri nú kominn í þá stærð, sem samkomulagið miðaði við og það þótt aðeins hefði verið tekinn hluti þeirra erlendu lána, sem samið var um.

Jóhanna sagði um þetta, að samstarf Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði styrkt verulega gjaldeyrisforðann. Hún sagðist ekki útiloka að við fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, sem ætti að ljúka í desember, verði farið yfir það hvort þörf sé á öllum þeim lánum sem gert sé ráð fyrir í efnahagsáætluninni. Hins vegar hefði engin ákvörðun verið tekin um að ljúka samstarfinu við AGS nú um mánaðamótin.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert