Meðmælafundur á Austurvelli

mbl.is/Heiðar

Á morgun kl. 16 ætla hollvinir heilbrigðisþjónustunnar á landinu öllu sameinast um friðsamlegan meðmælafund á Austurvelli. Hollvinir Heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi fóru af stað með undirskriftasöfnun til stuðnings heilbrigðisþjónustunni á Suðurlandi og munu stýra fundinum.

 Á fundinum munu fulltrúar hollvina heilbrigðisstofnana um allt land afhenda heilbrigðisráðherra undirskriftarlista til stuðnings heilbrigðisþjónustunni, að því er segir í tilkynningu.

Aðgerðahópur hefur ákveðið að boða sem flesta stuðningsmenn heilbrigðisþjónustunnar á Austurvöll af þessu tilefni til að sýna samstöðu.  „Þó skal tekið fram að ekki er verið að boða til mótmæla, heldur miklu frekar til meðmæla þar sem við sýnum að okkur er annt um þá heilbrigðisþjónustu sem byggð hefur verið upp um allt land á undanförnum áratugum,“ segir í tilkynningu frá hópnum.

„Meðmælafundurinn er haldinn til þess að vekja máls á mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar í heild sinni, þar með talið heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðisstofnana landsbyggðarinnar og hátæknisjúkrahúsa. Markmiðið er að sýna styrk í samstöðu landsmanna með meðmælum með heilbrigðisþjónustunni. Víða um landið er verið að veita góða, hagkvæma og örugga þjónustu. Þannig viljum við hafa það áfram. Stöndum vörð um heilbrigðisþjónustuna og hvetjum ráðamenn til að tryggja viðeigandi fjárframlög til heilbrigðismála sem tekur mið af raunverulegri þörf skjólstæðingana. Hvetjum alla sem láta sér annt um heilbrigðisþjónustu landsmanna að mæta og stöndum þétt saman um jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi sínu, jafnt höfuðborgarbúar sem landsbyggðarfólk,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert