Uppsögn fréttamanns forkastanleg

Þórhallur Jósepsson.
Þórhallur Jósepsson.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann teldi forkastanlegt að fréttamanni Ríkisútvarpsins hefði verið sagt upp störfum vegna þess að hann hefði skrifað samtalsbók við fyrrverandi stjórnmálamenn.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði brottvikningu Þórhalls Jósepssonar úr starfi fréttamanns hjá Ríkisútvarpinu, að umtalsefni í umræðum um störf þingsins í dag. Sagðist Guðlaugur Þór vita, að  fréttamaðurinn hefði ekki fengið neitt tækifæri til málsvarnar en ástæða uppsagnarinnar hefði verið tilgreind sú, að hann hefði skrifað bók um Árna M. Mathiesen, fyrrverandi ráðherra.

Guðlaugur Þór sagði, að hann hefði kynnt sér það, að viðkomandi fréttamaður hefði ekkert fjallað um landsdóm, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða þennan fyrrverandi ráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins. 

Össur sagði, að starfsmenn ríkisins hlytu að eiga rétt á að tjá skoðanir sínar gegnum bók af þessu tagi. Að segja starfsmönnum upp af þessu tilefni hljóti að vera handan við það sem er rétt og siðlegt þótt ekki sé hægt að fullyrða að það sé löglaust.

Össur sagði, að bókin hlyti að varpa fróðlegu sjónarhorni á mjög þungvæga atburðarás í sögu þjóðarinnar. Það væri sjálfsagt að fyrrverandi stjórnmálamaður, sem var þátttakandi í þeirri atburðarás, segi sögu sína.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að um væri að ræða innri málefni fréttastofunnar og Alþingi gæti ekki beint blandað sér í slík mál fremur en að þingmenn gætu blandað blandað sér í fréttamat Ríkisútvarpsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert