Eingöngu pólitískur stuðningur

Innrásin í Írak hófst 20. mars 2003.
Innrásin í Írak hófst 20. mars 2003. DESMOND BOYLAN

Ákvörðun um að Ísland verði með á lista þjóða sem styðja innrásina í Írak var tekin 17. mars árið 2003 og rædd á ríkisstjórnarfundi daginn eftir. Innrásin hófst 20. mars. Á fundi íslenskra embættismanna með embættismönnum í bandaríska sendiráðinu var tekið skýrt fram að af hálfu Íslands væri eingöngu um pólitískan stuðning að ræða.

Í skjölum um aðdragenda innrásarinnar í Írak, sem utanríkisráðuneytið birti í dag, kemur fram að fulltrúi sendiráðs Bandaríkjanna kom á fund skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins 18. mars árið 2003 og afhenti lista yfir þau ríki sem styðja aðgerðir Bandaríkjanna og Bretlands í Írak. Í skjalinu segir síðan innan sviga: „(sbr. samtal skrifstofustjóra við ráðherra [utanríkisráðherra] í gærkvöldi vegna beiðni Heather Conley í Washington). Listinn hafði verið afhentur forsætisráðherra í morgun og fulltrúi forsætisráðherra segist hafa borið hann undir utanríkisráðherra. Samkvæmt því hafi verið samþykkt að Íslands bættist í hóp 23 ríkja sem þegar voru á listanum.“

Í skjalinu er vakin athygli á því að dyggir stuðningsmenn Bandaríkjanna eins og Ástralía, Japan og Portúgal séu ekki á listanum. Fulltrúi bandaríska sendiráðsins lofaði að láta íslensk stjórnvöld vita hvort fleiri ríki bættust á listann og með hvaða hætti ætlunin væri að nota hann. „Þá var og rætt hvað það þýddi fyrir ríki að vera á listanum, og fulltrúa sendiráðsins gert ljóst að hér væri um pólitískan stuðning að ræða eingöngu. Ísland væri herlaust ríki og gæti ekki stutt hernaðaraðgerðir.“

Í skjalinu kemur jafnframt fram að Ástralir og Pólverjar ætli að senda lið til Persaflóa og Japanir styðji kröfu Bush um lokafrest Saddam Hussein til handa.

Í skjalinu er fjallað um ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem voru grundvöllur aðgerða gegn Írak. Síðan segir: „En hins vegar má segja að afdráttarlaus ályktun öryggisráðs Sþ sem heimili hernaðaraðgerðir liggi ekki fyrir, sem hefði verið betri kostur. En úr því sem komið er geta menn vísað í fyrirliggjandi ályktanir.“

Margvísleg skjöl

Skjölin sem utanríkisráðuneytið hefur birt eru af ýmsu tagi. Hluti þeirra eru frásagnir bandarískra og kanadískra fjölmiðla um stöðu mála í aðdraganda stríðsins. Þar er að finna ræður forystumanna í bandarískum og evrópskum stjórnmálum. Einnig er þar að finna skjöl um afstöðu stjórnvalda í Líbýu, Túnis, Alsír, Sýrlandi, Úganda, Litháen og fleiri löndum til mögulegs stríðs. Í skjölunum koma m.a. fram sjónarmið fræðimanna um stöðuna í Írak og pólitískar afleiðingar stríðsins. Hluti skjalanna eru dagsettur eftir að innrásin hófst 20. mars 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert