Dómurum fjölgað tímabundið

mbl.is/GSH

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að hæstaréttardómurum verði fjölgað um þrjá frá og með næstu áramótum og héraðsdómurum verði fjölgað um fimm tímabundið frá 1. mars á næsta ári. 

Með þessu vilja stjórnvöld bregðast við því aukna álagi sem orðið hefur á síðustu tveimur árum á dómstóla landsins. Í byrjun þessa árs var héraðsdómurum fjölgað um fimm, úr 38 í 43, en samkvæmt þessu frumvarpi verða þeir 48. Þá verður hæstaréttardómurum fjölgað úr 9 í 12. Raunar telur dómsmálaráðuneytið að væntanlega þurfi að fjölga héraðsdómurum um fimm til viðbótar.

Búast má við að nýju héraðsdómararnir muni koma til starfa hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og Héraðsdómi Reykjaness þar sem mests álags er að vænta á næstu árum.

Þessi ráðstöfun er tímabundin en gert er ráð fyrir að ekki verði skipað í embætti dóma sem losna eftir 1. janúar 2013 þar til fjöldi dómara er aftur orðinn í samræmi við lög um dómstóla. 

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að  fyrirsjáanlegt sé að ágreiningsmál frá slitastjórnum vegna krafna í þrotabú, einkum þrotabú fjármálafyrirtækja, muni verða mikil að umfangi og berast héraðsdómi hratt. Hafi Héraðsdómi Reykjavíkur, frá 1. janúar á þessu ári borist 532 slík mál og sé 500 þeirra ólokið. Muni mál af þessum toga koma fyrir héraðsdóm af fullum þunga á árinu 2011 og meðferð þeirra standa yfir fram eftir ári 2012.

Þessi mál muni væntanlega koma fyrir Hæstarétt af fullum þunga frá og með árinu 2011 eða í byrjun árs 2012. Mál frá sérstökum saksóknara muni berast jafnar og yfir lengra tímabil. Sumarið 2010 hafi einungis eitt slíkt mál verið þingfest fyrir héraðsdómi. Ekkert stórt mál sé komið og muni það fyrsta stóra væntanlega fyrst koma á árinu 2011.

Gert er ráð fyrir að mál frá sérstökum saksóknara muni síðan dreifast yfir tímabil fram til ársins 2013 til 2014 og væntanlega koma til afgreiðslu í Hæstarétti í lok ársins 2011 eða í byrjun árs 2012.

Dómarar í Hæstarétti eru nú níu. Lagt er til í frumvarpinu að frá og með næstu áramótum fjölgi þeim um þrjá og verði samtals 12. Á sama hátt og með dómara í héraði er um tímabundna fjölgun dómara að ræða þannig að eftir 1. janúar 2013 verði ekki skipað í þær dómarastöður sem losna þar til fjöldi hæstaréttardómara verði aftur níu.


Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins áætlar að kostnaður ríkissjóðs aukist á næsta ári um 128 milljónir króna á næsta ári, vegna fjölgunar dómara og að árlegur kostnaðarauki eftir það verði 145,5 milljónir króna.  Gert er ráð fyrir að á móti verði innheimt hærri dómsmálagjöld í ríkissjóð þannig að afkoma hans verði óbreytt eftir sem áður. Hvorki hafi hins vegar verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár né auknum tekjum til að mæta þeim. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert