Heimavarnarliðið skorar á dómsmálaráðherra

Heimavarnarliðið var mætt í Hafnarfjörð í morgun þar sem nauðungarsala …
Heimavarnarliðið var mætt í Hafnarfjörð í morgun þar sem nauðungarsala fór fram. mbl.is/Kristinn

Heimavarnarliðið skorar á Ögmund Jónasson dómsmálaráðherra að stöðva nauðungasölur og útburði af heimilum þegar í stað. Slíkar sölur haldi áfram þrátt fyrir óleystan skuldavanda heimilanna.  

Liðsmaður Heimavarnarliðsins, sem vill ekki láta nafn síns getið, segir að hópurinn hafi aldrei reynt að koma í veg fyrir uppboð. Menn séu fyrst og fremst að fylgjast með hvernig slík uppboð fari fram. Þeir geri athugasemdir við það sem þeim finnst vera óhæfa.

„Menn fara bara áfram og láta formsatriðin ráða en innihaldið skiptir engu máli. Á meðan eru harmleikir um allt land,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Heimavarnarliðið hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Heimavarnarliðið var ekki stofnað til að verja mannorð fólks eða taka afstöðu til persónulegra mála, heldur til að verja heimili gegn óréttmætum skuldakröfum fjármálastofnana. Nauðungasölur halda áfram af fullum krafti þrátt fyrir óleystan skuldavanda heimilanna. Ábyrgðin er ríkisstjórnar Íslands. Forsendubresturinn er algjör. Bankamaskínan æðir áfram og ætlar sér að reisa við óbreytt kerfi á herðum gjaldþrota almennings. Heimavarnarliðið skorar á Ögmund Jónasson dómsmálaráðherra að stöðva þessar nauðungasölur og útburði af lögheimilum nú þegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert