Moskumálið skýrist í ársbyrjun

Bænahald múslima
Bænahald múslima Reuters

Tvö félög múslima vilja fá lóð undir mosku í Reykjavík. Það eru Félag múslima og hið nýja Menningarsetur múslima á Íslandi.

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir að borgin hafi lofað lóð undir mosku árið 2001 og verið sé að leita lausna. „Það eru nokkrar lóðir sem koma til greina. Skipulagsráð mun taka ákvörðun fljótlega á næsta ári,“ segir Páll og vill ekki gefa upp hvaða lóðir er um að ræða.

Hann segir að það sé hægara sagt en gert að finna lóð sem hentar þessari starfsemi. „Það þarf að hafa í huga að þetta er hús fyrir almenning, þar þarf að vera gott aðgengi og nóg af bílastæðum.“

Hann segir borgina sjálfa ekki eiga mikið af landi  í borgarlandinu. Hann segir að forsvarsmenn múslima vilji ekki vera í úthverfi og því komi lóðir í nýjustu hverfum borgarinnar ekki til greina.

Hann segir að gagnrýni þess efnis að borgin sé viljugari til að veita kristnum söfnuðum lóðir eigi alls ekki við rök að styðjast. „Reykjavíkurborg hefur ekki úthlutað neinum kristnum söfnuðum lóðir til byggingar. Varðandi kirkjur, þá er það í lögum að sveitarfélög eigi að útvega þjóðkirkjunni lóðir. Þær eru yfirleitt settar á aðalskipulag þegar ný hverfi eru skipulögð, þær eru ekki ákveðnar eftir á Þannig að það er ólíku saman að jafna,“ segir Páll.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert