Ólögleg gögn um geðsjúka

Persónuvernd hafnaði nýlega umsókn nokkurra sérfræðinga um að mega nýta gagnagrunn sem hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar um geðsjúklinga.

Umsóknin tengdist rannsókn sem  sérfræðingarnir vinna að.

Gagnagrunnurinn inniheldur upplýsingar um fólk sem fékk sína fyrstu geðgreiningu í sérfræðiþjónustu á Íslandi á árunum 1966-1967.

Sérfræðingarnir sóttu um að fá að samkeyra gagnagrunninn við ýmsar miðlægar skrár; skrár landlæknis, krabbameinsskrá, dánarmeinaskrá og örorkulífeyrisþegaskrá TR.

Gagnagrunnurinn varð til þegar einn af sérfræðingunum vann doktorsritgerð sína árið 1977 og fékk þá gögn  frá starfandi geðlæknum. Gögnin innihalda upplýsingar um kennitölur einstaklinga, sjúkdómsgreiningu, hjúskaparstétt, menntun, vinnu og dánarmein.

Engin leyfi voru gefin fyrir stofnun hans, en á þeim tíma voru ekki til nefndir á borð við Persónuvernd, Tölvunefnd, Siðanefnd Landspítala eða Vísindasiðanefnd.

Í niðurstöðu Persónuverndar segir að  „hvergi liggi fyrir að gerður hafi verið reki að því að afla samþykkis hinna skráðu eða reyna með öðrum hætti að tryggja lögmæti vinnslunnar. Að mati Persónuverndar eru því ekki forsendur fyrir því að líta svo á að um lögmætan gagnagrunn sé að ræða.“

Því sé ekki unnt að fallast á umsóknina.

Ákvörðun Persónuverndar




 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert