Heilbrigðismál á krossgötum

Landspítali Háskólasjúkrahús Hringbraut.
Landspítali Háskólasjúkrahús Hringbraut. Júlíus Sigurjónsson

Stóra áskorunin í heilbrigðismálum á tímum efnahagskreppu er að ná fram aukinni skilvirkni, þrátt fyrir aðhald í rekstri stofnana. Þá kallar þróun í átt til aukinnar sérhæfingar á stærri einingar, endurskipulagning sem bættar samgöngur styðja við. Þetta kom fram í ræðu velferðarráðherra á læknadögum. 

Ræðan var að vísu ekki flutt af Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra heldur var hún flutt af staðgengli hans, Sveini Magnússyni. Sá Guðbjartur sér ekki fært að mæta vegna fundahalda ríkisstjórnarinnar.

Er þessi áhersla ráðherra - að stækka rekstrareiningar í heilbrigðiskerfinu - í samræmi við málflutning Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem hefur boðað að einingar verði stækkaðar.

Í ræðutexta ráðherra kom einnig fram að góður árangur hefði náðst í lækkun lyfjakostnaðar, árangur sem vakið hefði athygli utan landsteinanna. Þá var vikið að nokkrum atriðum í lýðheilsumálum, svo sem stöðugt lægri tíðni reykinga.

Ræðan opnaði málþingið Heilbrigðisþjónusta á krossgötum á læknadögum á Hilton hóteli Nordica í dag en frummælendur voru Geir Gunnlaugsson landlæknir, Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, Gróa Jóhannesdóttir, formaður Læknaráðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra komst ekki á fundinn vegna anna og var Sveinn Magnússon sem fyrr segir staðgengill hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert