Eignir OR auglýstar til sölu á næstu vikum

Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur stefna að því að setja nokkrar eignir Orkuveitu Reykjavíkur í opið söluferli í næsta mánuði. Listi yfir eignir, sem lagt er til að verði seldar, var lagður fram á stjórnarfundi OR í dag en listinn var ekki samþykktur.

Stór hluti fundar stjórnar OR í dag fór í að ræða yfirlýsingar stjórnarformanns fyrirtækisins í viðskiptablaði Morgunblaðsins um rekstrarform Orkuveitunnar og því gafst ekki tími til að ljúka umræðu um eignalistann.

Stjórnendur OR tilkynntu um sparnað í rekstri, hækkun gjaldskrár og sölu eigna í lok ágúst í fyrra og í framhaldinu samþykkti stjórnin verklagsreglur um hvernig ætti að standa að sölunni.

Í þeim er eignunum skipt í fimm flokka. Í fyrsta lagi hlutabréf og önnur verðbréf. Í öðru lagi fasteignir. Í þriðja lagi jarðir og lendur án jarðhitaréttinda. Í fjórða lagi söfn og aðra hluti sem hafa að geyma menningarlegt verðmæti og í fimmta lagi aðrar eignir OR sem hafa verulegt verðgildi þ.e. yfir 5 milljónir.

Þær eignir sem fyrirhugað er að selja verða settar í opið söluferli. Eignirnar verða auglýstar til sölu og óskað eftir tilboðum. Berist engin tilboð getur innkaupastjórnin falið löggiltum fagaðila að leita eftir tilboðum í eignirnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni verður sveitarfélögum boðinn forkaupsréttur á einhverjum hluta eignanna. Stjórn félagsins hefur þegar samþykkt að selja eina eigna, en það er geymsluhúsnæði við Austurbæjarskóla. Þar verður Reykjavíkurborg boðinn forkaupsréttur.

Stjórn OR er ekki búinn að afgreiða endanlega lista yfir eignir sem verða boðnar til sölu, en reiknað er með að hann verði lagður fyrir næsta stjórnarfund. Í fréttatilkynningu sem OR sendi til fjölmiðla 27. ágúst í fyrra voru eftirtaldar eignir nefndar sem dæmi um eignir sem fyrirhugað væri að selja: „Eignarhlutir í ýmsum félögum, til dæmis í HS Veitum og Landsneti, landareignir og lóðir sem skilja má jarðhitaeignir frá, til dæmis Hvammsvík í Kjósarhreppi og Berserkseyri á Snæfellsnesi og fasteignir á borð við Hótel Hengil, sem rekið er í fyrrum starfsmannahúsi á Nesjavöllum, og veitingastaðinn Perluna í Reykjavík.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert