Haukur verður með fyrsta tónverkið í Hörpu

Á myndinni eru Steinunn Birna Ragnarsdóttir, Haukur Tómasson og Árni …
Á myndinni eru Steinunn Birna Ragnarsdóttir, Haukur Tómasson og Árni Heimir Ingólfsson.

Við opnun Myrkra músíkdaga í Háskólabíói í gærkvöldi var tilkynnt um verðlaunahafa í samkeppni um nýtt íslenskt tónverk sem Harpa efndi til  í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verðlaunahafi er Haukur Tómasson og verkið verður frumflutt á opnunarhátíð Hörpu þann 13. maí næstkomandi.
 
Haukur fær að verðlaunum eina milljón króna sem Harpa leggur til.  Steinunn Birna Ragnarsdóttir tónlistarstjóri Hörpu afhenti verðlaunin og í dómnefnd sátu Daníel Bjarnason (fulltrúi Félags íslenskra hljómlistarmanna), Egill Ólafsson (fulltrúi Félags tónskálda og textahöfunda), Hildigunnur Halldórsdóttir (fulltrúi Listaráðs Hörpu), Kjartan Ólafsson ( fulltrúi tónskáldafélagsins) og Árni Heimir Ingólfsson ( Fulltrúi SÍ) sem jafnframt var formaður dómnefndar.
 
Í umsögn dómnefndar um verkið segir, „Verkið hefur sterkt og ákveðið svipmót, í því ríkir glaðværð og eftirvænting sem hæfir tilefninu vel. Stefjavinnsla höfundar er skemmtilega útfærð, og litbrigðin sem fást með notkun hljóðfæranna eru fjölbreytt og glæsileg, svo að Sinfóníuhljómsveit Íslands er gefið færi á að njóta sín til fulls. Sérstaka hrifningu vakti tilþrifamikill og kröftugur hápunktur verksins, sem ber yfirskriftina Estatico, sem mætti útleggja sem: „í sæluvímu", eða „með ofsakæti".“
 
Í ræðu sinni við athöfnina sagði Steinunn Birna keppnina undirstrika vilja til þess að Harpa verði vettvangur fyrir hina fjölhæfu íslensku tónlistarmenn sem og tónsköpun íslenskra tónskalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert