Um 2.700 tonnum af loðnu landað í Eyjum

Kap VE og Sighvatur Bjarnason VE lönduðu í Eyjum í …
Kap VE og Sighvatur Bjarnason VE lönduðu í Eyjum í dag. mynd/Sigurgeir

Kap VE og Sighvatur Bjarnason VE, skip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, lönduðu um 2.700 tonnum af loðnu síðdegis dag. Það sem af er þessu ári hafa skip Vinnslustöðvarinnar landað um 7.000 tonnum af loðnu.

„Við tökum allavega einn túr í viðbót í mjöl og lýsi og sjáum svo til,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Vinnslustöðinni, í samtali við mbl.is.

Undanfarna daga hefur verið mikil bræla að sögn Sindra. „Það var fyrst í gærkvöldi sem það var orðið þokkalegt veður og þokkalegar torfur til að kasta á,“ segir Sindri og bætir viða að skipin hafi verið úti við veiðar í þrjá daga.

Aðspurður segist hann ekki sjá fram á loðnufrystingu á næstunni. „Ég er ekki bjartsýnn á það. Markaðsaðstæður eru þannig að það eru ekki miklir möguleikar í frystingu á loðnu.“

„Á þessum tíma í fyrra vorum við ekkert að vinna loðnu. Þá vorum við að bíða eftir því að hrognafyllingin yrði þannig að hægt yrði að frysta loðnuhrogn. Það er meiri úthlutun núna og þess vegna erum við að veiða í mjöl og lýsisvinnslu,“ segir Sindri. Eru afurðirnar notaðar í ýmislegt, m.a. fóðurgerð og í fatnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert