Búist við stormi á Suðurlandi, Faxaflóa og á Miðhálendinu

Búist er við stormi á Suðurlandi, Faxaflóa og á Miðhálendinu síðdegis. Í fyrstu verður suðaustan 5-10 m/s norðan og austantil og þurrt að mestu, en dálítil rigning við ströndina.

Vaxandi suðaustanátt sunnan-og vestanlands með morgninum, 15-23 m/s síðdegis og rigning. Hvassast suðvestantil en austlægari átt 10-18 m/s norðan og austanlands seint í dag. Lægir aftur suðvestanlands í kvöld. Hiti 1 til 8 stig.

Á höfuðborgarsvæðinu verður fremur hæg breytileg átt og skýjað með köflum í fyrstu en hægt vaxandi suðaustanátt með morgninum, 13-20 m/s síðdegis og rigning. Lægir í kvöld. Hiti 3 til 7 stig.

Um 850 km suðaustur af Hvarfi er ört vaxandi 943 mb lægð sem verður á hádegi í kringum 935 mb og um 700 km austsuðaustur af Hvarfi. Yfir Skandinavíu er 1030 mb hæð.

Á morgun, sunnudag, er útlit fyrir suðaustan 8-13 m/s og slyddu eða snjókomu með köflum, einkum norðan og austantil. Hvessir suðvestanlands með kvöldinu og fer að rigna. Hiti 0-4 stig við sjóinn en annars vægt frost. 

Klukkan þrjú í nótt var fremur hæg austlæg átt um landið vestanvert en suðaustlæg átt, 5-10 m/s austantil. Rigning á með austurströndinni og dálitlar skúrir suðvestantil annars skýjað að mestu en þurrt. Svalast var1 stigs frost á Sauðárkróki en mildast 7 stiga hiti í Surtsey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert