Jákvæður gagnvart tillögu um þjóðaratkvæði

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður.
Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður.

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður VG, segist vera jákvæður gagnvart því að Icesave-samningarnir fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann studdi tillögu um þjóðaratkvæði þegar síðustu samningar voru til umfjöllunar í þinginu.

„Ég hef almennt verið fylgjandi beinum þjóðaratkvæðagreiðslum í sem ríkustum mæli. Ég tel að minnihluti þings eða ákveðið hlutfall þjóðarinnar eigi að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um stór eða lítil mál.

Ég sé á þeirri undirskriftasöfnun sem er hafin og á umræðunni út í þjóðfélaginu að það er vaxandi áhugi fyrir því að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að ég er bara að skoða það með mjög jákvæðum huga. Ég hræðist það ekki að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þetta mál eða önnur mál,“ sagði Ásmundur Einar.

Þegar Alþingi greiddi síðast atkvæði um Icesave-samninginn studdi Ásmundur Einar tillögu um að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Menn geta velt fyrir sér í ljósi þess að þeir samningar fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ekki sé eðlilegt að þessir nýju samningar fari líka sömu leið og þjóðin taki því málið aftur í sínar hendur. Ég er því jákvæður gagnvart því að skoða þennan möguleika. Mér finnst þá eðlilegast að þingið gerði það sjálft rétt eins og með fyrri samninga. En þetta veltur mikið þrýstingnum út í samfélaginu.“

Alls hafa 18.176 skrifað undir áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu á vefsíðunni kjósum.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert