Tillagan á mjög gráu svæði

Sigurður Líndal lagaprófessor.
Sigurður Líndal lagaprófessor. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Líndal lagaprófessor segir að þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs sé mjög hæpin, vægt til orða tekið. „Ég er þeirrar skoðunar að hún sé á mjög gráu svæði,“ segir Sigurður, sem var gestur allsherjarnefndar Alþingis í morgun sem fjallaði um skipun stjórnlagaráðs.

Sigurður bendir á að skv. 15. gr. laga um stjórnlagaþing hafi Hæstarétti verið falið að skera úr um gildi kosninganna til stjórnlagaþings til að fá endanlega niðurstöðu, þ.e. geri menn athugasemdir við þær.

Ígildi Hæstaréttardóms

„Þegar Hæstarétti er falið þetta verkefni þá verður þeirri niðurstöðu ekki áfrýjað, hvort sem menn eru ánægðir eða óánægðir. Með þessu, þá felur Alþingi æðsta dómsvaldinu að skera úr,“ segir Sigurður. 

Hann tekur fram að í lögum um stjórnlagaþing sé niðurstaða Hæstaréttar kölluð ákvörðun en hvorki dómur né úrskurður. Reyndar sé talað um að skera úr í lögunum, og því megi svosem kalla niðurstöðuna úrskurð.

„Hvers eðlis er þessi gjörningur Hæstaréttar,“ spyr Sigurður.

„Ég hef haldið því fram, og sumir hafa jafnvel gengið lengra, að þetta sé a.m.k. ígildi Hæstaréttardóms. Nú eða jafnvel dómur. Ég hef nú ekki gengið lengra en það,“ segir hann.

„Úr því að Alþingi fól Hæstarétti þetta verkefni, má þá ekki segja að með þingsályktunartillögunni sé Alþingi að ganga gegn niðurstöðu Hæstaréttar? Taka fram fyrir hendur dómsvaldsins og ganga á svig við það?“

Þingið sé með ákvörðun sinni að ganga inn á svið dómsvaldsins og raska þar með skiptingu ríkisvaldsins. Sigurður er þeirrar skoðunar að þetta verði menn að skoða betur. Skv. þingsályktunartillögunni sé Alþingi að binda sig við niðurstöðu sem sé ógild að dómi Hæstaréttar. 

Stjórnlagasniðganga

Hann bendir á að Alþingi geti skipað stjórnlagaráð en að það geti ekki bundið sig við þá 25 einstaklinga sem kosnir voru á þingið í nóvember sl.

„Það sem er óeðlilegt er að þeir binda sig við þennan hóp manna sem hefur ekkert umboð. Þeir eru búnir að fá þeim umboðið aftur,“ segir Sigurður.

„Af hverju var það [Alþingi] að vísa þessu til Hæstaréttar ef það á svo ekki að fara eftir því? Hefði þá ekki verið betra að hafa t.d. einhverja sérstaka kjörstjórn sem úrskurðaði og svo mætti áfrýja því til dómstóla o.s.frv. Þá er ferlið orðið allt annars eðlis,“ segir Sigurður. 

„Ef þetta er ekki ólöglegt, ef þetta fer ekki beinlínis við lög, þá er þetta a.m.k. lagasniðganga, stjórnlagasniðganga.“ Þetta séu því ekki gæfurík fyrstu skref að því að breyta stjórnarskrá landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert