8,6% atvinnuleysi

Skráð atvinnuleysi í febrúar var 8,6% en að meðaltali 13.772 manns voru atvinnulausir í febrúar og eykst atvinnuleysi um 0,1 prósentustig frá janúar eða um 314 manns að meðaltali. 

Fram kemur á vef Vinnumálastofnunar, að körlum á atvinnuleysisskrá fjölgaði um 187 eða um 0,2 prósentur að meðaltali en konum um 127 að meðaltali eða um 0,1 prósentu. Mest fjölgaði atvinnulausum hlutfallslega á Vestfjörðum en þar fjölgaði um 26 manns á atvinnuleysisskrá að meðaltali.

Atvinnuleysið er 9,2% á höfuðborgarsvæðinu en 7,7% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 14,5%, en minnst á Norðurlandi vestra 4,1%. Atvinnuleysið er 9,3% meðal karla og 7,8% meðal kvenna.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 7662 og fjölgar um 457 frá lokum janúar og er um 52% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok febrúar. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fjölgar úr 4794 í lok janúar í 4.820 í lok febrúar.

Alls voru 2722 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok febrúar en 2670 í lok janúar eða um 18% allra atvinnulausra í febrúar og fjölgar um 52 frá því í janúar. Í febrúar 2010 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 3104.

Alls voru 198 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok febrúar sem er 13 fleiri störf en í janúar, þegar þau voru 185. Flest laus störf eru meðal þjónustu, sölu – og afgreiðslufólks eða alls 75. 

Í mars 2010 var atvinnuleysi 9,3% eða sama og í febrúar 2010. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í mars 2011 breytist ekki mikið og verði á bilinu 8,5%‐8,8%.

Skýrsla um atvinnuleysi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert