Enginn lýsti áhuga á taflmönnum

Bobby Fischer situr við einvígisborðið í Þjóðmenningarhúsinu og fyrrverandi forseti …
Bobby Fischer situr við einvígisborðið í Þjóðmenningarhúsinu og fyrrverandi forseti Skáksambandsins, Guðmundur G. Þórarinsson, stendur hjá. Einar S. Einarsson

Enginn frá Skáksambandinu né nokkur annar hafði lýst yfir áhuga á að kaupa taflmenn eða borð tengdu einvígi Boris Spasskí og Bobby Fischer sem Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti sambandsins, seldi, þegar það var auglýst. Guðmundur segist vona að þetta veki menn til umhugsunar um að koma upp safni til minningar um einvígið.

Skáksamband Ísland sendi frá sér tilkynningu fyrr í kvöld þar sem það var harmað að munir sem tengdust einvígi Fischers og Spasskís hér á landi árið 1972 væru seldir úr landi. Um helgina voru taflmenn sem notaðir voru við eina skák þeirra og árituð borðplata seld á uppboði í New York.

Guðmundur segist hafa fengið taflmennina að gjöf frá stjórn Skáksambandsins á afmæli sínu árið 1972. Þeir hafi aðeins verið notaðir í einni skák sem tefld var í bakherbergi. Borðplatan hafi verið ein af u.þ.b. tólf eða fimmtán sem ekki voru notaðar og voru gefnar mönnum að launum fyrir sjálfboðaliðastarf við einvígið.

„Þegar ég hætti sem forseti Skáksambandsins tók ég það upp hjá sjálfum mér að fara með stóra taflborðið og taflmennina og gaf Þjóðminjasafninu. Fyrir það var ég gríðarlega mikið gagnrýndur og skákhreyfingin var mjög á móti því. Það er taflið sem allar skákirnar voru tefldar á nema sú þriðja,“ segir Guðmundur.

Honum finnist þetta sjónarmið Skáksambandsins nú mjög vel skiljanlegt og honum hefði þótt manna mest gaman af því ef Íslendingum hefði borið gæfa til að safna þessum munum saman. Vonast hann til þess að salan á taflmönnunum og borðinu nú verði til þess að vekja menn til umhugsunar um að reisa safn um einvígið enda hafi lítið sem ekkert verið gert til að minnast þessa merka atburðar. 

Borðplatan umdeilda með eiginhandaráritunum Fischers og Spasskys. Ekki var þó …
Borðplatan umdeilda með eiginhandaráritunum Fischers og Spasskys. Ekki var þó teflt á plötunni sem Guðmundur seldi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert